Freyðivínin um áramótin

Flugeldar, áramótaskaup og freyðivín eru t´´ákn áramótanna hér á landi. Af þessu þrennu þá er það sem veisluhöld um áramóteiga sameiginlegt víðast um heim, sú hefð að skála fyrir liðnu ári og ekki síður nýju ári í glasi af góðu kampavíni.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir öll freyðandi vín. Þetta sýnir kannski best hversu vel markaðssetning vínbændanna í Champagne hefur tekist í gegnum aldirnar. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Champagne er hérað í norðurhluta Frakklands, austur af París og eru víngerðarsvæðin í kringum hina sögufrægu borg Reims. Þar og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði.

En kampavín eru ekki ókeypis og því horfa margir til annarra svæða. Það eru framleidd frábær freyðivín víða um heim og þau bestu þeirra eru gerð samkvæmt sömu aðferðum og kampavín, það er með kolsýrugerjun í flösku en ekki í tönkum.

Á Ítalíu drekka menn Spumanti og þekktasta freyðivínið er Prosecco. Þau eru ansi misgóð en hægt er að fá virkilega flott Prosecco. Af þeim sem hér fást mælum við með Nino Franco Rustico og

Spánverjar eru með réttu stoltir af hinum ágætu Cava-vínum sínum sem framleidd eru í Katalóníu. Við erum afskaplega hrifin af hinum frábæru Juve & Camps og mælum einnig sérstaklega með Perelada og Villa Conchi.

Um allt Frakkland má finna svokölluð Crémant-vín sem oft eru einhver bestu kaupin í freyðivínum. Framleiðsluaðferðin er sú sama og í Champagne, það er kolsýrugerjunin er í flöskunni. Það sem aðskilur þau frá kampavínunum er fyrst og fremst tvennt, annars vegar landafræðin, þetta eru vín framleidd utan Champagne og hins vegar eru þrúgurnar stundum – en ekki alltaf – aðrar en þær sem notaðar eru í Champagen. Í miklu uppáhaldi um árabil hafa verið t.d. vínin frá Bailly-Lapierre, bæði hið hefðbundna Brut-vín með gula miðanum og rósavínið Bailly-Lapierre Rosé Brut. Þá er Crémant-vínið frá Francois Martenot vel gert og traust.

Nú nýlega bættust líka við tvö freyðivín frá hinu þekkta vínhúsi Gerard Bertrand í Suður-Frakklandi. Bertrand gerir freyðivínin sín í Limoux. Þetta er með elstu víngerðarsvæðum Frakklands og þrátt fyrir að vera syðst í Frakklandi, um tuttugu kílómetrum frá Carcassonne hentar loftslagið vel fyrir framleiðslu á hvítvínum og freyðivínum. Svalara loft frá hafinu hefur áhrif auk þess sem ekrurnar eru í allt að rúmlega fjögur hundruð metra hæð yfir sjávarmáli. Fjórar þrúgur eru leyfilegar í Crémant de Limoux, tvær hvítar (Chardonnay og Chenin Blanc) og tvær rauðuar (Pinot Noir og Mauxac). Crémant-vínin tvö eru annars vegar hefðbundið Brut (árgangur 2020) og hins veagr Brut Rosé (árgangur 2021). Bæði frábærlega vel gerð og góð viðbót við flóruna.

Deila.