Youvetski er gríska orðið yfir langeldaða rétti þar sem fyrir kemur kjöt og pasta.
Mig langaði svo í eitthvað mjög bragðgott úr lambakjöti í slagveðrinu í gær og lagðist því í gúggl, fann nokkrar uppskriftir af þessum bragðmikla og einstaklega bragðgóða gríska rétti og ákvað að láta slag standa.
Þetta er einn af þessum réttum þar sem einungis þarf að nota einn pott, sem ég tel alltaf gríðarlega mikinn kost, því fátt er leiðinlegra en að þurfa að þvo endalausa potta og pönnur eftir að maður er búinn að láta líða úr sér í sófanum eftir matinn og klára dreggjarnar úr rauðvínsglasinu. Athugið að eldamennskan tekur um 2 klukkutíma í heild.
Orzo er smátt hrísgrjónalaga pasta sem er algengt í miðausturlöndum. Það er ekki hlaupið að þvi að finna orzo hérlendis, en ég hef þó fengið það í austurlensku búðunum, nú síðast í Istanbul market á Grensásvegi, sem er stórkostleg búð. Í stað orzo má notast við annað smátt pasta, eins og orecchiette, eða jafnvel perlu-couscous.
Þar eð það er notað kjötsoð í uppskriftinni þarf að passa saltmagnið þegar kjötið er steikt.
Hér er uppskriftin, miðast við 2-3:
Innihaldsefni:
500 gr lambagúllas, fremur smátt skorið (ég keypti innralærisbita og skar niður), fitusnyrt
2 stórir gulir laukar, smátt skornir
4-5 hvítlauksrif, maukuð
1 bolli rauðvín (ég notaði vín með meðalþéttri fyllingu)
1 dós marzano tómatar (eða aðrir hágæðatómatar)
2-3 msk góð extra virgin ólífuolía
1 tsk paprika
1 tsk þurrkað oregano
½ tsk kanill
½ tsk múskat
salt og nýmalaður pipar
1 bolli lambasoð (eða annað gott kjötsoð)
1 bolli orzo
Til að setja yfir:
fetaostur
fersk steinselja
Aðferð:
Takið til þykkbotna pott með góðu loki, hér mæli ég eindregið með steypujárnspotti.
Hitið olíuna vel, og steikið kjötbitana þar til þeir eru vel brúnaðir á öllum hliðum, um 8-10 mínútur við rúmlega miðlungshita. Saltið og piprið.
Veiðið kjötið upp úr pottinum og mýkið lauk og hvítlauk í olíunni sem eftir er, 3-4 mínútur. Bætið þurru kryddunum í og steikið í 1 mínútu í viðbót, bætið svo kjötinu aftur í pottinn og hellið rauðvíninu yfir og passið að skrapa allt gumsið úr botninum. Bætið þar á eftir tómötunum og safanum af þeim út í og brjótið tómatana upp með trésleif. Soðið fer út í einnig og lokið sett á. Leyfið kjötinu að malla í klukkutíma við lágan hita, bætið svo orzoinu út í, hækkið í meðalhita og haldið áfram að sjóða réttinn í 20 mínútur með lokið að hluta til af. Passið að hræra upp af og til, svo pastað festist ekki við botninn.
Þegar tíminn er liðinn setjið lokið aftur þétt á og leyfið réttinum að standa í 5-10 mínútur.
Myljið að lokum fetaostinn yfir og dreifið úr fersku steinseljunni. Drekkið svo afganginn af flöskunni með!