Marani Saperavi Qvevri 2020

Við höfum fjallað um nokkur georgísk vín síðustu mánuðina sem öll hafa heillað og komið á óvart. Þetta Saperavi keravín frá Marani á þó vinninginn, það er einfaldlega frábært, ekki síst þegar horft er á verðmiðann. Maður hugsar með sér af hverju maður hafi ekki notið Georgíuvínanna alla ævi en minnir sig þá á að það eru ekki svo mörg ár síðan að víngerðin fór á flug á nýjan leik eftir að hafa verið hluti af sovésku landbúnaðarstefnunni megnið af síðustu öld. Nú eru liðnir rúmlega þrír áratugir frá því að Georgía varð sjálfstæð á ný og gat endurreist sína fornu vínmenningu og það hefur hún svo sannarlega gert. Georgía er með elstu víngerðarríkjum veraldar og saga vínræktar þar spannar þúsundir ára. Í hinni fornu víngerðarhefð Georgíu, sem er hluti af skrá UNESCO yfir hinn óáþreifanlega menningararf heimsins, er þrúgusafinn ásamt hýði og jafnvel stilkjum látinn gerjast í egglaga leirkerum (qvevri) sem eru grafin í jörð í nokkra mánuði á meðan víngerjunin á sér stað. Talið er að þessari aðferð hafi fyrst verið beitt í Georgíu fyrir um átta þúsund árum síðan.

Þetta vín er einmitt slíkt „keravín“ og gert úr Saperavi-þrúgunni sem er meginþrúga þeirra Georgíumanna. Hún er mjög dökk (meira að segja ávaxtakjötið) og vínin eftir því. Liturinn er dimmur, svarblár og nær ógagnsær, kryddaður svartur ávöxtur áberandi, þroskaðar plómur, krækiber, sólber og dökkristaðar kaffibaunir. Í munni er það hins vegar ótrúlega bjart og ferskt, þetta er kraftabúnt en langt í frá að vera yfirþyrmandi. Tannín taka vel í en eru mjúk og sýran fersk og þægileg, austræn krydd fléttast saman við vínið. Gefið því góðan tíma, umhellið gjarnan.

100%

3.481 krónur. Frábær kaup - þetta er alveg magnað vín fyrir þennan pening. Stenst mun dýrari vínum snúning.

  • 10
Deila.