Alberto Zuccardi var fyrstur til að hefja vínrækt í Maipú í Mendoza og fjölskyldan er einnig meðal frumkvöðlana í Uco. Barnabarnið Sebastian er nú við stjórnvölinn og áherslan er enn á að finna einstakar ekrur sem draga fram einkenni viðkomandi svæða. Q-línan frá vínhúsinu var sú fyrsta sem gerð var undir nafni fjölskyldunnar og nafnið er dregið af því að í upphafi voru skikar á vínekrum sem þóttu bera af merktir með skilti sem á stóð Q til að auðkenna að þar væru gæðin (Quality) hæst. Við höfum áður fjallað um Malbec-vínið í línunni og hér er komið hvítvín úr Chardonnay-þrúgum, ræktuðum í norðurhluta Uco.
Fölgult með ljósum, suðrænum ávexti, ferskjur, gul epli og sítrubörkur, blóm, mildir eikartónar. Ágætlega þykkt, svolítið smjörkennt, en hefur þægilegan léttleika. Langt með ferskri og flottri sýru.
3.577 krónur. Frábær kaup. Með bleikju eða laxi.
-
9