Bodegas Marta Maté 2020

Bodegas Marta Maté er vínhús í Ribera del Duero á Spáni sem þau Marta Castrillo og Cesar Maté stofnuðu árið 2008. Þau voru ekki alveg ókunn víngerð því að áður höfðu þau vakið athygli fyrir einnar ekru vínið Primordium sem einungis var framleitt í mjög litlu magni (um þrjú þúsund flöskur árlega). Ekrur Marta Maté eru nyrst í héraðinu í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli og áhersla þeirra Mörtu og Cesars er á sem náttúrulegasta ræktun og lágmarks inngrip í vínræktinni.

Það er ekki ýkja langt síðan að við fjölluðum um 2019 árganginn af þessu víni og nú er að detta inn nýr árgangur. Rétt eins og sá eldri einkennist 2020 af mýkt og fágun. Ribera-vínin eru þekkt fyrir að geta verið miklir kraftaboltar en hér er það ekki aflið sem slíkt (þó vissulega sé það töluvert) sem vekur athygli heldur „togið“ svo notað sé bílamál. Vínið heldur endalaust áfram, þykkt og þétt. Það er enn ungt með áberandi rauðum ávexti sem enn hefur ekki runnið saman við sæta eikina, það hefur staðföst en mjúk tannín, nokkuð míneralískt.

90%

3.921 króna.

  • 9
Deila.