Oft er það þannig í sögu kampavínshúsa að þau geta bent á eitthvað sem gaf þeim sérstöðu og stundum verður sérstaðan að hinu almenna. Louise Pommery stóð skyndilega frammi fyrir því árið 1860 að þurfa að taka við rekstri kampavínshússins eftir að eiginmaður hennar féll frá einungis nokkrum mánuðum eftir að hafa fest kaup á því. Hún hefur greinilega verið það sem við í dag myndum kalla breytingastjórnanda, kampavín voru alltof sæt á þessum tíma, þetta voru yfirleitt eins konar dessertvín sem neytt var í lok máltíðar, og hún þróaði því nýjan flokk, þurran og ferskan, sem hún markaðssetti undir heitinu Brut. Í dag eru hátt í 90% af öllum kampavínsflöskum í heiminum í Brut-flokknum.
Það eru allar þrjár kampavínsþrúgurnar notaðar í blönduna, það er Pinot Noir, Pinot Meunier og Chardonnay og það í jöfnum hlutföllum. Liturinn er ljósgulur og það freyðir þétt og fullkomlega. Það er einstaklega heillandi við þetta kampavín, mýktin, balansinn, það er algengilegt og ljúffengt. Klassískt nef með brioche og mildum sítrus og eplum, þurrt og ferskt, en áferðin og freyðingin samt mjúk.
7.499 krónur. Selt á tiuvin.is. Frábær kaup.