Rioja Alta: Framþróun, ekki bylting

Þegar fjallað er um sígild Rioja-vín eru vínin frá La Rioja Alta með þeim fyrstu sem koma upp í kollinn. Saga þess hófst árið 1890 þegar að fimm fjölskyldur í héraðinu tóku sig saman og stofnuðu Vínfélag Efri-Rioja eða Sociedad Vinicola de La Rioja Alta. Afkomendur þessara fjölskyldna hafa síðan haldið rekstri þess áfram og nú er það sjötta kynslóðin sem er við stjórnvölinn.

Reksturinn hefur undið upp á sig í millitíðinni og vínhúsið er ekki lengur eitt heldur fjögur en á síðustu áratugum hafa bæst við Lagar Ð Cervera í Rias Baixas, Áster í Ribera del Duero og Torre de Ona í Rioja.

Öll eru þau rekin samkvæmt sömu sýn er byggir á því að samræma hefðir og nýsköpun undir kjörorðinu „framþróun, ekki bylting“. Haldið er í hefðina með því að byggja á hinum klassísku hefðum hvers héraðs hvað varðar staðbundnar þrúgutegundar, notkun á amerískri eik, langa geymslu og handtínslu við uppskeru. Markmiðið er að gera vín sem í senn eru fáguð og flókin. Nýsköpun felst í því að tileinka sér nýjustu tækni í víngerð og draga fram ferskleika og ávöxt vínanna.

Þá er aukin áherslu á sem náttúrulegasta ræktun. Allar ekrur eru í eigu La Rioja Alta og alls eru nú um 25 hektarar komnir í lífræna ræktun.

Vínin frá La Rioja Alta hafa reglulega komið við sögu hjá okkur á síðustu árum og við ætlum á næstunni að kíkja á hvernig nýjustu árgangarnir sem hér eru í boði frá vínhúsunum fjórum eru að spreyta sig.

Deila.