Georgía – vagga víngerðar

Georgía við Svartahaf er með elstu víngerðarríkjum veraldar og saga vínræktar þar spannar þúsundir ára. Það má jafnvel halda því fram að þarna við Svartahaf sé hin eiginlega vagga víngerðar í heiminum. Georgísku vínin hafa verið nokkuð sýnileg hér á landi á síðustu misserum og þann 22. nóvember næstkomandi mun Vínstofnun Georgíu í samvinnu við sendiráð Georgíu gagnvart Íslandi og ræðismann Georgíu á Íslandi standa fyrir Master Class-smökkun á georgískum vínum. Þá verður heimildarmyndin“Georgia Homeland of Wine“ sýnd í Bíó Paradís þann 21. nóvember. Hægt er að skrá sig fyrir miða á facebook-síðu Georgíuvína.

 Í hinni fornu víngerðarhefð Georgíu, sem er hluti af skrá UNESCO yfir hinn óáþreifanlega menningararf heimsins, er þrúgusafinn ásamt hýði og jafnvel stilkjum látinn gerjast í egglaga leirkerum (qvevri) sem eru grafin í jörð í nokkra mánuði á meðan víngerjunin á sér stað. Talið er að þessari aðferð hafi fyrst verið beitt í Georgíu fyrir um átta þúsund árum síðan mörg þúsund árum áður en fyrsta eikartunnar kom við sögu í víngerð. Qvevri-kerin eru notuð bæði undir gerð hvítvína og rauðvína og fá hvítvín sem ræktuð eru með þessari aðferð fagurgulan litt og eru gjarnan nefnd „orange“-vín eða appelsínugult vín. Í stuttu máli má egja að appelsínugul vín séu hvítvín sem eru framleidd eins og rauðvín, það er berjahýðin eru í leginum við víngerjunina.

Georgía býr líka að því að þar vaxa fornar vínþrúgur sem við á Vesturlöndum höfum lítið fengið að kynnast.  Alls er talið að rúmlega fimm hundruð þrúgutegundir geti rakið uppruna sinn þangað en í dag eru um 30 georgískar tegundir uppistaða vínræktarinnar. Hin hvíta Rkatseteli er ein þeirra en hún hefur verið ræktuð í árþúsundir í Georgíu og er vinsælasta hvítvínsþrúgan þar í landi. Saperavi er síðan ein útbreiddasta rauðvínsþrúga Georgíu, dökk og sýrumikil. Hún er ein af örfáum vínþrúgum heimsins sem flokkast sem „teinturier“ þar sem ekki einungis berjahýðið heldur einnig ávaxtakjötið er dökklitað. Annað dæmi um slíka þrúgu er Alicante Bouschet sem ræktuð er víða á Spáni og Portúgal.

Vínrækt landsins skiptist upp í nokkur skilgreind vínræktarhéruð og eru þau þekktustu Kakheti, Kartli, Imereti, Racha-Lechkumi og Samegrelo. Alls er vín ræktað af um 55 þúsund hektörum og er um þrjá fjórðu af ekrunum að finna í Kakheti og um 95% af heildarframleiðslunni. Um helmingur framleiðslunnar er Rkatseteli-hvítvín og um þriðjungur Saperavi-rauðvín.

Deila.