Tommasi Amarone 2018

Tommasi hefur ræktað vín allt frá byrjun síðustu aldar þegar Giacomo Battista Tommasi keypti fyrstu ekruna sína í Valpolicella Classico. Fjórða kynslóðin heldur nú utan um reksturinn og hefur heldur betur fært út kvíarnar út fyrir heimahagana í Veneto. Alls ræktar Tommasi nú vín á 550 hektörum víðs vegar um Ítalíu, s.s. í Maremma í Toskana, Púglíu, Basilicata og Lombardíu.

Það er hins vegar í Veneto sem að hjarta fjölskyldunnar slær og þar eru flaggskipin í framleiðslunni auðvitað Amarone úr vindþurrkuðum Valpolicella-þrúgum. Það er gert úr klassísku rauðu Veneto-þrúgunum fjórum. Helmingurinn er Corvina en síðan Corvinone, Rondinella og Oselata. Dimmrautt með byrjandi þroska í litnum, plómur, bökuð kirsuber, kaffibaunir og lakkrís í nefi, þýkkt og safaríkt, kryddað, áferðin mjúk og heit. Klassískur, fínn Amarone.

90%

6.199 krónur. Frábær kaup. Klassískur og þægilegur Amarone. Prófið með villibráð eða hægelduðu kjöti, t.d. Osso Buco.

  • 9
Deila.