Luca Old Vine Malbec 2018

Laura Catena er eins og nafnið kemur til kynna hluti af þekktustu vínfjölskyldu Argentínu. Hún tók hins vegar ákvörðun um að helga sig læknavísindunum en ekki víngerðinni og hélt til Bandaríkjanna til náms við Stanford og Harvard. Enginn veit hins vegar ævi sína fyrr en öll er og eftir heimsókn til heimaslóðanna þar sem hún heillaðist af gömlum Malbec-ekrum í Uco-dalnum ákvað hún að stofna vínhúsið Luca, sem nefnt er eftir elsta syni hennar. Hún hefur síðan unnið mikið með vínræktendum sem rækta Malbec af gömum vínvið og er þetta vín afraktstur þess. Meðalaldur vínviðarins er 51 ár.

Svarfjólublátt með djúpum, dökkum lit. Sæt krækiber og sólber í nefinu, dökkristaðar kaffibaunir, kókos, mulin kóríanderfræ, vínið er þykkt og rismikið, þétt tannín sem halda utan um kryddaðan berjamassan. Ferskt. Umhellið gjarnan.

100%

4.931 króna. Frábær kaup. Með nautakjöti, með villibráð. Reynið með hreindýrakjöti.

  • 10
Deila.