Laurent-Perrier Grand Siécle no. 26

Stóru kampavínshúsin leggja gífurlegan metnað í flottustu vínin sín enda má segja að það séu ekki síst þau kampavín sem að halda ímynd þeirra á lofti. Laurent-Perrier státar til dæmis af því að framleiða eitt besta rósakampavín veraldar en krúnudjásnið er engu að síður lúxusvínið Grand Siécle. Ólíkt flestum ofurkampavínum er þetta ekki árgangsvínum heldur blanda nokkurra árganga þar sem að víngerðarmenn Laurent-Perrier leitast við að setja saman það sem náttúran á erfitt með að gera – nefnilega hinn fullkomna árgang. Fyrsta blandan var sett fram árið 1959 og nú stendur okkur til boð sú 26. þar sem vínið kemur af 8 grand cru ekrum og notaðir eru þrír toppárgangar eða 2007, 2008 og 2012. Stíll Laurent-Perrier byggir mikið á Chardonnay og hún er ríkandi í Grand Siécle með 58% á móti 42% af Pinot Noir.

Vínið er fallega gullið og freyðingin, þétt og mikil, öll áferð mjúk og fáguð. Þurrkaður, sætur ávöxtur, þurrkaður sítrónubörkur, apríkósa, brennt smjör, ristaðar heslihnetur. Gífurlega margslungið og í senn þroskað og ferskt. Stórkostlegt kampavín.

.

Deila.