Parada de Atauta 2020

Dominio de Atauta er hágæða vínhús í  Ribera del Duero sem framleiðir vín í nútímalegum stíl. Alls hefur húsið í sinni eigu eða umsjón tæpa 55 hektara af ekrum sem flestar eru í um þúsund metra hæð yfir sjávarmáli uppá spænsku hásléttunni. Atauta státar af því að vera með vínvið frá tímabilinu áður en rótarlúsin phylloxera lagði evrópska vínrækt í rúst. Slíkur vínviður er einstaklega sjaldgæfur enda þurfti evrópsk vínrækt nærri því eins og hún lagði sig að græða vínviðinn á amerískar rætur er voru ónæmar fyrir lúsinni.

Parada de Atauta er vín í léttari og „yngri“ stíl en stóribróðirinn Dominio de Atauta, sem við munum fjalla um síðar. Vínviðurinn er yngri sem TInto Fino – þrúgurnar  í Parada koma af og í víngerðinni er lögð áhersla á að draga fram ávöxtinn frekar en þroska og eik og tíminn á tunnum er því rétt rúmt ár. Þetta er engu að síður hörkufínt vín, liturinn er dimrauður og djúpur, ávöxturinn í nefi dökkur, skarpur, þroskaður og ágengur. Sólber og dökk kirsuber eru ríkjandi en það má finna vott af eik í gegnum dökkt súkkulaði. Vínið er ferskt, sýrumikið og míneralískt, tannín kröftug og gefa þéttan strúktúr. Það má vel gefa þessu víni góðan tíma til að opna sig, leyfið því að anda í einn eða tvo tíma í karöflu ef þið hafið tök á. Enn ungt, má vel geyma í 3-5 ár.

4.390 krónur. Frábær kaup. Virkilega vel gert vín, fínt með grillaðri nautasteik.

  • 9
Deila.