Aresti er gamalgróið fjölskylduvínhús sem upphaflega var stofnað í Curico af Vicenti Aresti Astica og tóku dætur hans Begona og Ana Maria við rekstrinum er faðir þeirra féll frá. Þær hafa meðal annars fært út kvíarnat til Leyda. Ekrurnar eru einungis í um fimm kílómetra fjarlægð frá Kyrrahafinu, ræktunartíminn er lengri en á heitari svæðum og þarna eru kjöraðstæður ekki síst fyrir Pinot Noir og Sauvignon Blanc.
Það fer ekki á milli mála að þarna er Sauvignon Blanc frá Nýja heiminum á ferðinni. Það er skrautlegra en klassísku frönsku sauvignon blanc-vínin sem oftast eru fókuseruð og skörp. Í nefinu stútfullt af nýslegnu grasi, súrsætum blóðgreip, grænum aspas og lyche. Ferskt og þykkt í munni, sætur og þægilegur ávöxtur. Fínt með t.d. taílenskri matargerð þar sem kókosmjólk og sítrónugras koma við sögu.
3.489 krónur. Frábær kaup.
-
9