Kjúklingur með rósmarín og fullt af hvítlauk er frábær grillmatur.
- 1 kjúklingur
- 1 lúka ferskt rósmarín, saxað
- 1/2 sítróna, safinn pressaður
- 1/2 hvítlaukur, geirarnir pressaðir eða maukaðir
- 1 msk ólífuolía
- Maldonsalt og nýmulinn pipar
Opnið kjúklinginn og fletjið út með því að klippa hann í sundur á bringubeininu með góðum eldhússkærum. Nuddið honum upp úr sítrónusafanum og olíunni. Saltið hann hressilega og piprið. Nuddið rósmarín um kjúklinginn og troðið hluta af því undir húðina á kjúklingnum. Dreifið pressaða hvítlauknum á innri hlutann, þ.e. á beinhlutann.
Hitið grillið þar til að það er orðið sjóðandi heitt. Setjið þá kjúklinginn á grillið með skinnhliðina niður. Slökkvið á brennaranum undir (eða færið kolin til hliðar ef þið eruð með kolagrill). Eldið undir loki í um 15 mínútur og passið vel upp á að það fari ekki að loga undir kjúklingnum. Snúið honum þá við og eldið í um 25-30 mínútur í viðbót. Endanlegur tími ræðst af hita grillsins og stærð kjúklngsins. Það er alltaf hægt að stinga í læri, ef glær vökvi kemur út er hann tilbúinn.
Steinseljusósa
- 1 búnt flatlaufa steinselja
- 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 1 dl hágæða ólífuolía
- salt og pipar
Saxið steinseljuna mjög fínt og pressið hvítlaukinn. Blandið saman í skál. Bætið ólífuolíunni smám saman saman við og hrærið í með gaffli á meðan. Bragðið til með salti og pipar.
Berið fram með bökuðum kartöflubátum og steinseljusósu. Hvítt eða rautt gæti átt við, hvers vegna ekki hvítt, s.s. Gérard Bertrand chardonnay.
 
								
				 
					
										
												
				 
	
											 
	
											