Óáfengu vínin á uppleið

Óáfeng vín eru svo sem ekki ný af nálinni en þau hafa verið að sækja verulega í sig veðrið á síðustu árum. Ekki síst eru það yngri kynslóðir, svokallaðir millenials eða z-kynslóðin, sem hefur drifið þessa þróun áfram með breyttum neysluvenjum frá fyrri kynslóðum. En svo eru líka margvíslegar ástæður fyrir því að fólk kýs óáfengt, sumir eru í heilsu- eða æfingaátaki, aðrir eru kannski að passa upp á kalóríurnar, einhverjir eru á bíl eða þá hafa komist að þeirri niðurstöðu að áfengi eigi ekki samleið með þeim. Óáfengu vínin eru valkostur fyrir þá sem engu að síður vilja geta lyft glasi með vinum eða fengið sér glas af rauðu eða hvítu með matnum. Vaxandi vinsældir óáfengra vína hafa leitt til mikillar þróunar á þessu sviði, stöðugt fleiri framleiðendur skjóta upp kollinum og tæknin við framleiðsluna verður sömuleiðis stöðugt fullkomnari.Þetta er ekki lengur sama sæta sullið og lengi var einkennandi fyrir þessa kategóríu.

  Óáfeng vín eru alla jafna „alvöru“ vín þar sem áfengið hefur verið fjarlægt. Það flókna er að framkvæma það án þess að fjarlægja bragð og ilm á sama tíma. Við smökkuðum nýlega nokkur óáfeng vín frá Chavin, sem er framleiðandi í Suður-Frakklandi og þau komu skemmtilega á óvart. Nefið eða angan vínsins er mjög áþekk því sem gengur og gerist, það eru t.d. alveg greinileg  Sauvignon Blanc-einkenn í Sauvignon-víninu. Freyðivínið kemur sérstaklega vel út. Þau eru vissulega ekki þess eðlis að ekki sé hægt að greina þau frá hefðbundnum vínum, ekki síst í munni vantar svolítið upp á fyllinguna og breiddina. Það er vídd þarna sem vantar. En þau komast ansi nálægt og greinilegt að þróunin er komin verulega langt í þessum geira.

Deila.