Nero di Troia er suður-ítölsk þrúga sem er ræktuð í héraðinu Púglíu. Hún er ekki eins þekkt og þrúgurnar Primitivo og Negroamaro og þetta er líklega með fyrstu „hreinu“ Nero di Troia-vínunum sem hér koma á markað, að minnsta kosti munum við ekki eftir öðru. (Fyrir um fimmtán árum var hér hægt að fá toppvínið Il Falcone frá Rivera sem er blanda úr Nero di Troia og Negroamaro).
Vínið er dökkt, angan jarðbundin,míneralískt, mikil jörð, reykur, tjara og dökkur, heitur ávöxtur. Svipaður fílingur og í sumum suður-afrískum vínum. Eftir því sem vínið fær að anda meira verður dökkur og kryddaður ávöxturinn, kirsuber, sólber, meira ríkjandi, tannín eru mjúk og vínið hefur góða fyllingu og lengd.
2.290 krónur. Góð kaup.