Barolo-vínin frá Piedmont eru óumdeilanlega einhver mögnuðustu rauðvín Ítalíu ásamt þeim frá nágrannasvæðinu Barbaresco. Þrúgan Nebbiolo gefur þarna af sér kröftug, tannísk og langlíf vín sem geta verið alveg hreint stórkostleg þegar best lætur, unaðsleg matarvín.
Þetta Barolo-vín frá Rivetto er vel gert og sýnir vel bæði eiginleika þrúgunnar og svæðisins. Liturinn er rauðbrúnn, út í rautt, angan krydduð, þarna er smá fjós en einnig blómaangan í bland við dökkan ávöxt, kirsuber og sólber. Þurrt í munni, staðföst tannín en mjúk, langt. Flott vín. Líkt og með svo mörg góð vín af þessu svæði þá er krafturinn undirliggjandi – ef þetta væri bílvél væri líklega sagt að hún hefði hrikalega flott tog í staðinn fyrir hrátt afl.
Reynið með mildri villibráð á borð við hreindýr eða góðu risotto.
6.590 krónur.