Það eru ein tvö ár eða svo síðan að svarti miðinn eða Etiqueta Negra bættist við Casa Concha-línuna frá Concha y Toro. Lengi vel hefur í Chile verið lögð meiri áhersla á þrúgurnar sem notaðar eru í vínið en hvar þær eru ræktaðar. Það hefur hins vegar smám saman verið að breytast eftir því sem að vitund um eðli ólíkra svæða verður meiri. Á flöskumiða Etiqueta Negra er þannig ekki að finna þrúgunöfn stórin stöfum heldur lögð áhersla á svæðið Puenta Alto, sem er eitt af bestu Cabernet-svæðum, Chile, hlutmengi í Alto Maipo .Þaðan koma meðal annars vínin Almaviva, Chadwick og Don Melchor.
Þrúgurnar í víninu eru Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Petit Verdot. Vínið er dimmrautt, litur þéttur og djúpur, í nefinu sólber og plómur, sultuð brómber, piprað, eikin framarlega, vanilla og tóbakslauf. Í munni kröftugt, tannín eru öflug, það rífur svolítið í, míneralískt, kalksteinn, Umhellið gjarnan.
3.799 krónur. Sérpöntun og fríhöfn. Frábær kaup. Með nautakjöti.
-
9