
Vínhúsið Poggio Argentiera er afsprengi þess að þau Gianpaolo Paglia og Justine Keeling rugluðu saman reitum. Paglia er heimamaður í Maremma við sjávarsíðuna í Toskana og doktor í landbúnaðarfræðum en Keeling er Breti og sérfræðingur í markaðsmálum. Þau hjónin festu kaup á vínekrum í Maremma árið 1997 og hafa á þeim tíma sem síðan er liðin náð undraverðum árangri.
Cabernet Franc er ekki algeng þrúga sem uppistaða vína – nema þá helst í Chinon í Loire. Þekktust er hún fyrir að vera náskyld nafna sínum Sauvignon og ein af þrúgum hinnar klassísku Bordeaux-blöndu. Raunar er þetta sú þrúga sem bæði Cabernet Sauvignon og Merlot eru komnar af.
Þetta vín þeirra Paglia og Keeling sýnir og sannar að það er full ástæða til að gefa Cabernet Franc færi á að sýna hvað í henni býr, ein og óstudd. Vínið er dökkt og massívt, dimmblár berjaávöxtur, sætur og sultukenndur, grilluð rauð paprika, sömuleiðis allt að því sultuð, sætur ristaður viður, mjög míneralískt, þurrt og tan´nískt.
4.989 krónur. Frábær kaup. Þetta er flott og mikið vín, þarf smá tíma til að opna sig, umhellið gjarnan. Með bragðmiklum ostum eða vel hanginni nautasteik.
-
9