Kínahús og Kínahof

Kínamatur var lengi hugtak á Íslandi er náði yfir flestalla matargerð sem tengdist Asíu með einhverjum hætti, ekki síst ef um var að ræða mat sem hugsanlega mætti borða með prjónum, ég tala nú ekki um boðið var upp á súrsæta sósu. Smám saman hefur þetta nú sem betur fer verið að breytast ekki síst vegna strandhöggs taílienskra veitingastofa um landið allt.

Það má þó segja að kínverskur matur sé enn nokkuð óljóst hugtak í hugum flestra enda ekki nema von. Ekki nóg með að innan Kína sé að finna gífurlega breidd í matargerð, t.d. eftir landssvæðum, heldur er einnig verulegur munur á því sem kalla mætti kínverska matagerð annars vegar og hins vegar vestræna kínverska matargerð.

Raunar er margt af því sem við tengjum við „kínverska“ matargerð í raun vestræn útgáfa af kínverskum hefðum. Vestræna útgáfan þróaðist ekki síst í Bandaríkjunum en þangað flutti mikill fjöldi Kínverja á nítjándu öld, m.a. til að leggja járnbrautir. Málsháttakökurnar frægu eða „fortune cookies“ eiga til dæmis ekki uppruna sinn að rekja til Kína heldur San Francisco og það sama má segja um rétti á borð við Chow Mein og Chop Suey.

Alla jafna eru vestrænu réttirnir sætari og yfirleitt eldaðir með meiri hraða (t.d. á wok-pönnum) en hinir kínversku, notkun og val á grænmeti er mjög ólík og í kínverskri matargerð er mun meira um sjávarfang en í vestrænum kínverskum mat.

En kannski meira um þetta síðar.

Hér á Íslandi má finna nokkur kínversk veitingahús og hafa mörg þeirra verið rekin um árabil.

Á Nýbýlavegi í Kópavogi er t.d. að finna Kínahofið sem er vinalegur veitingastaður er býður upp á fjölmarga kínverska rétti. Þetta er ekki staður sem ber mikið yfir sér – hvorki að utan né innan – og íburður er ekki mikill. Þarna má sjá einhverjar dæmigerðar austurlenskar skreytingar á veggjum og kínversk tónlist streymir úr hátölurum. Á borðum eru glerplötur og borðbúnaður látlaus.

Uppsetning matseðils er með hefðbundnum hætti, réttir flokkaðir eftir því hvort aðalhráefnið er kjúklingur, nautakjöt, svínankjöt, önd eða núðlur.

Við pöntuðum all marga rétti og enginn þeirra var beinlínis slæmur, kannski að undanskilinni snöggsteiktri önd sem var þurr, seig og bragðdauf. Það sem veldur þó vonbrigðum er í fyrsta lagi hversu keimlíkir allir réttirnir voru í bragði og í öðru lagi hversu bragðdaufir.

Það breytti litlu um hvaða útgáfu var að ræða, allir einkenndust réttirnir af nokkurn veginn sama bragðinu eða kannski öllu heldur bragðleysinu. Enginn réttur beinlímis slæmur en jafnvel þeir sem voru merktir sem sérstaklega „sterkir“ voru langt frá því að nálgast keim úr chili-pipar.

Það er velþekkt að í vestrænu kínversku eldhúsi er oft gengið mjög langt til að milda matinn þannig að hann falli öllum í geð. Hér hafa menn líklega teygt sig fulllangt til að ná hinum sameiginlega samnefnara.

Kínahofið hefur þó sína kosti. Þetta er vinalegur og þægilegur fjölskyldustaður og verðlagið virkilega sanngjarnt og hófstillt. Máltíð kostar lítið og þótt maturinn sé kannski ekki sá bragðmesti má vel við hann una.

Kínahúsið í Lækjargötu er líklega sá kínverski veitingastaður á Íslandi sem lengst hefur verið í samfelldum rekstri og það án þess að nánast nokkru sé breytt í innréttingum né matargerð. Enda er þetta staður sem á marga vini og fastagesti og það ekki að óverðskulduðu.

Andrúmsloftið á Kínahúsinu er þægilegt og merkilega austrænt þótt þetta gamla timburhús beri ekki mikið yfir sér. Rauður litur ríkjandi og róandi tónlist, stólarnir í stíl Cesca-stóla Marcels Breuers. Bauhaus-stólarnir falla þó að öllu leyti inn í heildarmyndina og eru þægilegir fyrir gesti.

Í hádeginu er hægt að fá ódýrt og gott tilboð í kringum þúsundkallinn þar sem val er á milli þriggja rétta – sem einnig má fá alla á diskinn – og súpa innifalin. Á kvöldin má svo velja úr fjölbreyttum matseðli þar sem réttirnir eru flestir úr smiðju kantónska eldhússins eða Hunan-eldhússins.

Það er eiginlega sama hvað pantað er, það er alltaf jafngott. Súrsætar rækjur eru til dæmis stökkar og flottar og rétt hlutföll á milli rækju og deigs ólíkt því sem yfirleitt gerist, sósan mild, bragðgóð og stökkt kál, paprika og ananas falla vel að. Nautakjöt með sætri og góðri Hoi Sin-sósu og svínakjöt í ostrusósu leyfðu hráefnunum að njóta sín vel, steiktur kjúklingur með mildu hnetuolíubragði var sagður sterkur og hafði fínan chili-keim. Grænmetið öllum réttum fallega niðursneitt, yfirleitt laukur, gulrætur og paprika ásamt bambus.

Matargerðin nær þeirri kínversku en vestrænt kínversku, litrík, bragðmikil og góð. Þjónustan ávallt ljúf, þægileg og skilvirk þótt einungis ein manneskja sinni salnum hvort sem er í hádeginu eða á kvöldin. Maturinn er dýrari en í Kínahofinu en þó langt í frá að vera dýr, raunar í ódýrari kanti reykvískra veitingahúsa. Staður sem svíkur aldrei.

 

 

Kínahofið
Nýbýlavegi 20
Kópavogi

 

 

 

 

Kínahúsið
Lækjargötu 8
Reykjavík

 

Deila.