Í suðurhluta Toskana er að finna kastalann Brolio, sem hefur verið í eigu Ricasoli-fjölskyldunnar allt frá tólftu öld. Jafnt Brolio sem Ricasoli tengjast sögu Chianti Classico órofa böndum í gegnum aldirnar. Það var árið 1143 sem Ricasoli-ættin keypti Brolio en upphaflega kom fjölskyldan frá nyrsta hluta Ítalíu. Borgríki Toskana áttu á þessum árum í mikilli togstreitu um völd í héraðinu og var Brolio síðasti útvörður Flórensborgar gegn andstæðingum hennar í Siena. Kastalinn var reglulega eyðilagður í orrustum og það var ekki fyrr en á sextándu öld, eftir að Medici-ættin sameinaði borgir Toskana í eitt stórhertogadæmi, að hann fékk að standa í friði.
Landbúnaður hefur alla tíð verið mikilvægur í kringum Brolio og þá ekki síst vínrækt. Eru til heimildir frá tólftu öld um vínrækt við kastalann og frá miðöldum um sölu á vínum til norðurhluta Evrópu. Á nítjándu öld hóf Bettino Ricasoli barón að þróa vínræktina frekar og gerði tilraunir með ýmsar þrúgur, þar á meðal franskar þrúgur á borð við Cabernet Sauvignon og Pinot Noir. Komst hann að þeirri niðurstöðu að San Gioveto di Brolio (afbrigði af Sangiovese) væri sú þrúga er best hentaði til framleiðslu vína í Chianti Classico. Þrúgan Canaiolo gæti bætt við sætleika er tempraði hina stífu Sangiovese og hvíta þrúgan Malvasia mýkt þær báðar og gert vín, sem ekki væru ætluð til geymslu, heldur væru aðgengileg þegar í stað.
Urðu þessar rannsóknir Bettino Ricasoli, sem stundum var kallaður járnbaróninn eða Barone di Ferro, grunnurinn að reglum um samsetningu Chianti Classico-vína. Það er þó athyglisvert að hann nefnir hvergi hvítu þrúguna Trebbiano og telur Malvasia einungis henta fyrir léttari vín. Deilur um mikilvægi hvítu þrúgnanna í Chianti-vínum settu sterkan svip á vínumræðu í Toskana á síðari hluta tuttugustu aldarinnar og árið 1996 var ákveðið að nema úr gildi reglur þær, sem skylduðu menn til að nota ákveðið lágmarkshlutfall af Malvasia og Trebbiano. Voru þá flestir af bestu framleiðendum Chianti hvort eð er þegar farnir að virða þær reglur að vettugi.
Bettino Ricasoli varð síðar annar forsætisráðherra hins nýja lýðveldis Ítalíu eftir að hún var sameinuð af Garibaldi í eitt ríki árið 1871.
Vínin frá Brolio nutu lengi vel mikilla vinsælda um allan heim en á áttunda áratugnum keypti Seagrams-samsteypan meirihluta í fyrirtækinu og hóf að gera umfangsmiklar breytingar á rekstrinum. Brolio varð að miðstöð vínsölustarfsemi fyrirtækisins á Ítalíu og stöðugt minni áhersla var lögð á vínin sjálf. Orðstír fyrirtækisins og Ricasoli-nafnsins fór smám saman að dala og við upphaf tíunda áratugarins var svo komið að fjölskyldan ákvað að kaupa fyrirtækið aftur. Það gerðist árið 1993 og var Francesco Ricasoli barón, sem fram að því hafði starfað sem auglýsingaljósmyndari, fenginn til að taka við stjórninni.
Eitt hans fyrsta verk var að losa sig við alla stjórnendur og ráðgafa er tengst höfðu rekstri fyrirtækisins og ráða nýtt lið. Glæsileg álma í víngerðarhúsinu, er notuð hafði verið sem aðsetur stjórnenda og stjórnar, var rýmd og þess í stað sett upp glerskilrúm á jarðhæð þar sem skrifstofuhaldi var komið fyrir. Markmið Ricasoli var skýrt, hann hugðist reisa fyrirtækið er kennt var við fjölskyldu hans úr öskustónni og koma því í fremstu röð á ný í Chianti Classico. „Seagrams lagði mesta áherslu á magn, mikinn fjölda vína undir ólíkum vörumerkjum. Vínin misstu hins vegar þá virðingu sem þau höfðu notið. Markmið mitt er að láta fyrirtækið einbeita sér að þeim möguleikum sem vínekrur okkar bjóða upp á og einungis tvö vín eru nú kennd við Brolio-kastala. Gæði eru aðalatriðið og við höfum lagt í óhemju fjárfestingar til að ná markmiðum okkar,“ segir Ricasoli.
Eldhugurinn leynir sér ekki og honum verður tíðrætt um „verkefnið“, endurreisn Brolio og Ricasoli-nafnsins. Allur hagnaður fyrirtækisins fer í nýjar fjárfestingar og sjálfur hefur hann afsalað sér fyrirtækisbíl til að sýna gott fordæmi.
Breytingarnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Árið 1993, þegar fjölskyldan keypti aftur meirihluta í fyrirtækinu, voru seldar níu milljónir flaskna árlega undir Ricasoli-nafninu og alls voru vörumerkin um þrjátíu. Nú hefur vínunum verið fækkað niður í átta og hin árlega sala er þrjár milljónir flaskna. Á Ítalíu ákvað Francesco Ricasoli að selja einungis þrjú vín til að byrja með á meðan fyrirtækið var að byggja upp nafn sitt á nýjan leik.
Til að ná fram markmiðum sínum umbylti Ricasoli öllu í vínræktinni og víngerðinni. Stóru slóvensku eikarámunum var hent út og þess í stað fjárfest í litlum barrique-eikartunnum. Aukin rækt var lögð við sjálfar vínekrurnar, þar var nýr vínviður gróðursettur með auknum þéttleika og allt víngerðarferlið tekið til endurskoðunar. Eitt fyrsta nýja vínið til að líta dagsins ljós var Casalferro, vín í anda Súper-Toskana-vínanna, byggt á Sangiovese og með smá Merlot-viðbót í seinni tíð. Casalferro vakti verðskuldaða athygli og beindi augum manna að Ricasoli á nýjan leik. Það er hins vegar annað vín sem líklega verður flaggskip fyrirtækisins í framtíðinni. Það er vínið Castello di Brolio, sem var í fyrsta skipti framleitt árið 1997, Chianti Classico-vín eingöngu gert úr Sangiovese. Stórkostlegt vín sem hefur allt það til að bera sem hægt er að óska sér frá Chianti Classico-víni. Casalferro hefur styrkinn og vöðvana, Castello di Brolio mýktina og fágunina. Að auki framleiðir Ricasoli einfaldari Classico, Brolio, úr eigin þrúgum og mjög vandaðan Chianti Classico, Rocca Guicciarda, úr aðkeyptum þrúgum.
„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að snúa aftur til þess að framleiða besta vínið undir nafninu Chianti Classico. Við eigum ekki að skammast okkar fyrir það heiti. Ég tel einnig að Brolio hafi ákveðnum skyldum að gegna, sögunnar vegna, í þessu samhengi.“ segir Francesco Ricasoli. Þegar Castello di Brolio var kynnt var ekki efnt til mikillar kynningarherferðar um allan heim heldur vínið kynnt þrjátíu blaðamönnum á látlausan hátt í kastalanum, þar sem faðir Francescos býr enn. „Vínið verður að standa á eigin fótum,“ segir hann um ástæður þess að hann gerði ekki meira úr hinu nýja víni. Viðbrögðin hafa þó ekki látið á sér standa og greinilegt að ný stjarna er fædd í Chianti.
„Þegar ég hófst handa í upphafi héldu allir að ég væri genginn af göflunum,“ segir Francesco Ricasoli og brosir. Engum dettur það í hug lengur.