Franskur kjúklingapottur

Þessi kjúklingapottur er dæmigerður fyrir sígilda franska heimilismatargerð. Kjúklingur í rjómasósu heitir á frönsku Poulet á la Créme og er til í óteljandi útgáfum. Grunnurinn í réttinum er soðið sem myndast þegar við eldum kjúklinginn ásamt grænmeti en það er síðan notað til að sjóða hrísgrjónin í og sem grunnur í sósuna. Best er að elda kjúklinginn í góðum pottjárnspotti.

Þetta þarf í réttinn:

 • 1 kjúkling, bútaðan í tíu bita
 • 4-6 gulrætur, flysjaðar
 • 2 sellerístönglar, skerið endana af og síðan stönglana í tvennt
 • 8-10 skalottulaukar, flysjaðir
 • 1 púrrulaukur, hreinsaður og skorinn í fernt
 • 2 dl hvítvín
 • 2 l vatn
 • 1 kryddvöndur (rósmarín, timjan, steinselja og lárviðarlauf bundin saman í vönd)
 • 150 g sveppir
 • 1/2 sítróna
 • 2,5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
 • 3 dl hrísgrjón
 • 50 g smjör
 • salt og pipar

Byrjið á því að brúna kjúklingabitana í pottinum í nokkrar mínútur þannig að þeir fái á sig lit. Á meðan er hvítvínið soðið niður um helming í öðrum potti. Það tekur einungis örfáar mínútur.

Takið kjúklingabitana upp úr. Raðið grænmetinu, sellerí, skalottulauk, gulrótum og púrrulauk, í botninn og síðan kjúklingabitunum ofan á. Saltið og piprið vel. Leggið kryddvöndinn ofan á og hellið hvítvíninu og vatninu í pottinn. Setjið lok á pottinn, hitið upp að suðu og lækkið þá hitann. Leyfið að malla mjög rólega á vægum hita í 45 mínútur. Hellið þá 8 dl af soðinu sem hefur myndast í könnu.

Nú er komið að því að útbúa hrísgrjónin og sósuna.

Bræðið tvær matskeiðar af smjöri í potti. Veltið grjónunum upp úr og bætið síðan 5 dl af soði við. Sjóðið grjónin rólega.

Í öðru potti bræðum við tvær matskeiðar af smjöri, bætum þá tveimur matskeiðum af hveiti við og búum til hveitibollu. Hellið afganginum af soðinu í könnunni smám saman út í og hrærið í allan tímann. Nú er kominn kröftugur grunnur að sósunni og þá er rjómanum og sveppunum bætt út í. Látið malla í um 10 mínútur. Bragðið af með salti og pipar og kreystið safann úr hálfri sítrónu út í. Setjið nú kjúklingabitana í sósupottinn og leyfið þeim að malla með í nokkrar mínútur.

Berið fram á stóru, fallegu fati. Setjið fyrst grjónin á fatið og hellið síðan kjúklingunum og sveppasósunni varlega yfir. Takið grænmetið upp úr soðinu og raðið í kring. Soðið er síðan tilvalið að sía og frysta þangað til þið þurfið næst á góðu kjúklingasoði að halda.

Með þessu kemur auðvitað ekki til greina annað en að drekka kröftugt og sveitalegt franskt rauðvín frá Rhone á borð við Perrin Reserve eða Guigal Cotes du Rhone.

 

Deila.