Hildigunnur bloggar: Jarðarberjasnittur

Þetta klikkar ekki á að slá í gegn, hef verið beðin um þessa uppskrift nokkrum sinnum þannig að hér kemur hún. Ættuð frá Food Network Magazine svo ég segi nú hvaðan ég ræni henni. (vel þess virði að plögga þá síðu reyndar, margt skemmtilegt þar).

Í snitturnar þarf:

  • 1 stórt snittubrauð (ég nota yfirleitt súrdeigssnittubrauð frá Sandholti en venjuleg hvít eru líka fín)
  • 100 g brætt smjör
  • salt
  • sykur
  • 2 box af jarðarberjum
  • 1 msk balsamedik
  • 2 msk flórsykur
  • 1/2 bolli mascarpone eða rjómaostur
  • 1/4 bolli sykur
  • skvetta af vanilluessens eða korn úr hálfri vanillustöng

Byrjið á því að skera jarðarberin í sneiðar, strá yfir flórsykri og hella balsamedikinu ofan á. Ágætt að hrista þetta svolítið saman þannig að blandist vel. Þetta þarf að standa amk. hálftíma en má alveg vera lengur.

Hitið ofninn í 220°

Skerið snittubrauðið í frekar þunnar sneiðar, leggið á bökunarplötu og smyrjið með brædda smjörinu. Stráið yfir smá salti og sykri. Bakið í heitum ofninum í um 7 mínútur eða þar til þær eru fallega brúnar. Látið kólna ögn.

Á meðan snitturnar bakast, blandið saman rjómaostinum, sykri og vanillu.

Smyrjið snitturnar með ostablöndunni og setjið jarðarberin ásamt smá af balsamediksleginum ofan á. Kemst ekki mikið nær matarhimnaríki. Finnst mér.

Deila.