Ran Mussalan, lambalæri frá Norður-Indlandi

Þessi uppskrift er frá Norður-Indlandi og fengum við hana frá Chandriku á Austur-Indíafjelaginu. Hún er fyrir 6-8 manns.

Hráefni:

Lambalæri, 1,5-2 kíló

500 ml grísk jógúrt

2 msk rifinn engiferrót

1 msk maukaður hvítlaukur

5 msk laukmauk (saxið einn lauk, steikið á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Maukið þá laukinn)

1 msk garam masala

1 msk cumin

1 msk rautt chilli duft

5 maukaðar fíkjur (sjóðið þar til þær eru mjúkar og stappið í mauk

2 msk möndlumauk (látið möndlurnar liggja í vatni. Maukið í matvinnsluvél þegar þær eru orðnar mjúkar)

5 msk olía

saffran, nokkrir þræðir

salt

Skerið mestu fituna af læruna og skerið djúpar rifur í það þannig að kryddlögurinn nái alla leið inn í lærið.

Blandið öllum hráefnum nema jógúrtinu saman og nuddið saman við lærið. Látið lærið liggja ásamt kryddunum í sólarhring í ísskáp. Blandið þá jógúrtinu saman við kryddlöginn og látið lærið marinerast í sólarhring í viðbót.

Takið úr ísskápnum og leyfið kjötinu að ná stofuhita á ný.

Setjið lærið inn í 220 gráðu heitan ofn og heldið í 30 mínútur. Setjið þá álpappír yfir lærið, lækkið hitann í 160 gráður og hitið í eina og hálfa klukkustund til viðbótar.

Takið kjötið úr ofnfatinu og sjóðið vökvann niður þar til hún hefur þykknað. Setjið kjötið á fallegt fat og hellið sósunni yfir. Skerið í þykkar sneiðar og berið fram með stökku salati, hrísgrjónum, Naan og raita.

 

 

Deila.