Kjúklingur með ólífubasilsósu

Þetta er spennandi réttur þar bragðsamsetningin er samspil á milli sætu og seltu og útkoman ótrúlega góð.

 • 1 kjúklingur, bútaður niður í átta bita
 • 4 sætar kartöflur
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Flysjið sætu kartöflurnar og skerið niður í ca. 2 sm teninga. Setjið teningana í ofnfast fat og veltið þeim upp úr ólívuolíu.

Brúnið kjúklingabitana í olíu á pönnu og setjið síðan ofan á kartöfluteningana. Eldið í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur. Takið þá fatið út, snúið kjúklingabitunum við og eldið áfram í aðrar 20 mínútur.

Á meðan undirbúum við sósuna með því að setja eftirfarandi í matvinnsluvél:

 • 1 dós af steinlausum, grænum ólífum
 • 2 dl hvítvín
 • 2 msk akasíu-hunang
 • 1 pakki fersk basillauf
 • 6-8 hvítlauksgeirar
 • 2 sítrónur, rífið niður börkinn og pressið safann
 • 4 msk sojasósa

Maukið þetta allt vel saman í matvinnsluvélinni.

Þegar búið er að elda kjúklinginn og sætu kartöflurnar í samtals 40 mínútur takið þið fatið úr, hellið sósunni yfir og eldið áfram í 10-15 mínútur.

Gott hvítvín frá Nýjaheiminum, t.d. hið nýsjálenska St. Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc.

Deila.