Suður-ítalskt pasta með rækjum, fennel og rucola

Strandlengja Ítalíu er löng og rétt eins og annars staðar við Miðjarðarhafið er þar borðað mikið af sjávarfangi. Þessi pasta-uppskrift frá Suður-Ítalíu byggir að hluta til á klassískum hráefnum á borð við tómata og steinselju en fennelfræin og klettasalatið ljá þessu svolítði öðruvísi blæ.

Það er í sjálfu sér hægt að nota íslenskar rækjur í þennan pastarétt en risarækjurnar sem hægt er að kaupa frosnar í flestum stórmörkuðum eru líkari Miðjarðarhafsrækjunum sem notaðar eru í upprunalegu útgáfunni.

  • 500 g pasta, t.d. spaghetti eða penne.
  • 1 pakki ósoðnar risarækjur
  • 1 dl hvítvín
  • 1 dós heilir tómatar
  • 1 pakki klettasalat
  • 1 msk fennel-fræ
  • 1 msk rauðar chili-flögur
  • 1 lúka flatlaufa steinselja, fínt söxuð
  • ólívuolía
  • salt og pipar.

Afþíðið rækjurnar. Hitið olíu á pönnu og snöggsteikið rækjurnar. Þær skipta hratt um lit úr gráu í bleikt. Bætið hvítvíni og fennelfræjum út á  og látið malla í um mínútu. Bætið við tómötunum, chiliflögum og saltið örlítið. Leyfið að malla í 3-4 mínútur.

Sjóðið pasta, hellið vatninu frá og setjið pastað á pönnuna. Blandið öllu vel saman og bætið síðan klettasalatinu út á. Hrærið saman, sáldrið steinseljunni yfir  og berið fram með nýrifnum parmesanosti.

Með þessu gott suður-ítalskt hvítvín á borð við Lamadoro Bianco.

Deila.