Jólaákavíti í þrjátíu ár

Þegar fer að líða að jólum bíða Danir spenntir eftir því að jólaákavítið frá Aalborg komi á markaðinn en þar í landi er rík hefð fyrir því að bera fram ískaldan snafs með julefrokost-borðinu. Danir drekka hvorki meira né minna en hálfa milljón lítra af snafsi í desember, það eru ansi mörg staup á hvern Dana.

Álaborgarákavítið hefur tengst dönsku jólahaldi um aldabil en það var hins vegar ekki fyrr en 1982 sem sérstakt jólaákavítið kom fyrst á markaðinn og hefur náð að stimpla sig rækilega inn í dönsku snafsahefðina. Það er nokkuð frábrugðið hinu hefðbundna, með kröftugu kúmenkryddbragði en einnig örlitlum votti af dill og fennel. Mjög danskt í stílnum og frábært beint úr frystinum með síldinni.

Það var því mörgum og ekki bara Dönum mikið áfall þegar allt jólaákavíti ársins 2010 var innkallað vegna framleiðslugalla í tappa. Alla jafna er hönnun flöskunnar breytt á þriggja ára fresti en flaskan sem átti að koma fyrst á markað árið 2010 verður „einstök“ og því eflaust safngripur þegar fram í sækir. Á þessu ári komu Álaborgar með nýja flösku í tilefni 30 ára afmælis jólaákavítisins.

Deila.