Eitt þekktasta vínhús Frakklands, Chateau Latour, hefur ákveðið að frá og með árganginum 2012 verði vin þess ekki seld samkvæmt hinu hefðbundna en primeur-kerfi. Löng hefð er fyrir því að bestu vín Bordeaux séu seld strax að vori að lokinni uppskeru þó svo að vínin liggi enn á tunnu og fari ekki á flösku fyrr en eftir um ár.
Skiptar skoðanir eru á þessari ákvörðun Latour en vínhúsið sagðist byggja hana á því að draga úr spákaupmennsku með vínin. Færa má rök fyrir því að þetta komi neytendum – það er þeim sem á annað borð geta leyft sér að kaupa hin rándýru vín Latour – til góða þar sem þeir geti í framtíðina byggt ákvörðun sína á víninu sjálfu en ekki mati annarra á tunnusýnum. Þá munu hinir fjölmörgu milliliðir sem hagnast á en primeur-kerfinu væntanelega missa spón úr aski.
Ekki eru þó allir sannfærðir um að slíkar hvatir liggi að baki ákvörðun Latour og segja að þetta sé gert til að auðvelda Latour frekari sókn á Kínamarkað en þar er engin hefð fyrir kaupum á en primeur-vínum líkt og í Evrópu og Bandaríkjunum.