Önnur hæðin í Iðuhúsinu við Lækjargötu er farin að iða af lífi á nýjan leik. Þar eru nú að opna ný kaffi- og veitingahús og hið fyrsta þeirra, Café Mezzo, opnaði dyr sínar fyrr í sumar. Á bak við Mezzo standa hjónin Elvar Steinn Þorkelsson og Guðný Ósk Diðriksdóttir ásamt börnum.
Það er mikill metnaður í gangi hjá Mezzo og markmiðið að vera með kaffi og ekki síður te í hæsta gæðaflokki. Til að ná því markmiði ákvað fjölskyldan að hefja innflutning á eigin kaffi og te og er því boðið upp á kröftugt og magnað kaffi frá kaffibrennslunni Caffé Moak, sem hefur aðsetur í Modika á Sikiley, og enska tehúsinu Jeeves & Jericho.
„Við höfum fengið mikið af ferðamönnum hingað inn frá því að við opnuðum og þá ekki síst Ítölum og þeir hafa verið hæstánægðir með kaffið. Ég vona því að við séum að gera eitthvað rétt,“ segir Guðný.
Áherslan er hins vegar ekki síður á te og eru fjórtán ólíkar bragðtegundir af Jeeves & Jericho-teum í í boði en þetta eru mjög kröftug og bragðmikil te. Þá býður Mezzo upp á nokkrar tegundir af Chai Latte. Chai þýðir te á nokkrum tungumálum en þessi tegund þróaðist fram í Indlandi og er Chai svart te sem hefur verið bragðbætt með margvíslegum kryddum og síðan blandað saman við mjólk.
Með þessu öllu er boði upp á kökur og brauð af ýmsu tagi t.d. spænskar vöfflur auk þess sem hægt er að skoða nýjustu bækurnar frá Forlaginu, vafra á Netinu og skoða má öll þau tímarit sem eru seld í bókabúðinni á jarðhæðinni. Þá er stefnt að því með haustinu að vera með aukna áherslu á góð vín og byggja upp suður-ítalska stemningu en nú þegar er hægt að fá ítalskan bjór og vín á Mezzo.