Jólabjórinn 2013

Það ríkir alltaf veruleg spenna í aðdraganda þess að jólabjórarnir koma í sölu enda eru þeir búnir að festa sig rækilega í sessi sem hluti af „jólahaldinu“. Sala á jólabjór hefur vaxið ár frá ári og úrvalið eykst stöðugt, að þessu sinni er hægt að velja úr á þriðja tug jólabjóra, jafnt íslenskum sem erlendum.

En hvað er jólabjór? Er það bara venjulegur bjór með öðrum límmiða á flöskunum eða verður hann ekki að vera eitthvað umfram þetta venjulega? Í mörgum tilvikum eru jólabjórarnir bragðbættir með kryddum af einhverju tagi, kóríander, lakkrís, appelsínum og/eða humlarnir ristaðir aukalega sem gefur bjórnum karamellutóna.

Bjórsmökkunarteymi Vínóteksins kom saman á Kex í vikunni og smakkaði flesta þá jólabjóra sem nú verða á boðstólum. Í hópnum voru þeir Steingrímur Sigurgeirsson, ritstjóri Vínoteksins, Haukur Heiðar Leifsson, bjórbloggari, Þorri Hringsson, myndlistarmaður og lífskúnstler, Gunnar Karl Gíslason, veitingamaður á Dill, Gunnar Óli Sölvason, bjóráhugamaður og félagi í Fágun og Ólafur Ágústsson, matreiðslumaður og veitingastjóri á KEX.

Allir bjórarnir voru smakkaðir blint og var smökkuninni skipt í tvennt. Annars vegar voru hefðbundnir og léttari bjórar, flestir í lager og bockstíl. Hins vegar voru sérbjórar, mun stærri og meiri um sig. Öllum bjórum var gefin einkunn á bilinu 1-5 og var einkunnabilið miðað við hvern flokk fyrir sig.

Á heildina litið olli smökkunin nokkrum vonbrigðum, a.m.k. fyrri hlutinn. Margir bjóranna höfðu fátt til brunns að bera sem „jólabjórar“ annað en merkingarnar og það var fátt sem stóð upp úr. Ekki mikið um dirfsku og hugmyndaauðgi, flest brugghúsanna greinilega ekki á því að taka mikla sénsa.

Það voru hins vegar auðvitað ágætis sprettir inn á milli og þegar upp var staðið og hulunni svipt af bjórunum kom í ljós að það var Jólabockinn sem stóð uppi sem sigurvegari, en jólabjórinn frá Gæðingi var öruggur í öðru sæti. Í báðum tilvikum virkilega aðgengilegir og góðir bjórar.

Jólagull frá Ölgerðinni.

Freyðir stutt, lítur ágætlega út, sætur í nefi. Einfaldur, léttur, kolsýran svolítið gervileg, örlítil beiskja.  Ekkert jólalegt við þetta yfirgerjaða öl.

 Einkunn: 2

Thule Jólabjór.

Léttur í nefi, smá ristað malt, súkkulaði og „smjörkennd“ karamella, ágætis fylling og góð maltstemmning en dettur svolítið niður í lokin. „Ágætis matarbjór fyrir síldina,“ var eitt kommentið. „Fáránlega easy drinking,“ sagði annar.

Einkunn: 3

Steðji jólabjór.

Þykkur fínn haus, mikil karamella í nefi, sæt og feit, mjög ristaður. Svolítið þunnur í munni, mikið maltbragð, smá saltaður lakkrís í lokin. „Undir-karbaður,“ heyrðist sagt. Örlítið í ætt við þýska lager bjóra.

Einkunn: 2,5

Carl‘s Jul frá Carlsberg.

Lítil lykt, malt og kóla. Nokkuð beiskur, þurr, málmkenndur keimur, nokkuð humlaður. Áreynslulítill bjór. Það voru töluvert skiptar skoðanir um bjórinn, hann fékk einkunnir á bilinu 2-3 og meðaleinkunnin var 2,5.

Viking jólabjór.

Ristuð lykt, smá súr. Léttur lager, engin „jólabjórs“-einkenni.

Einkunn: 1,5

Gæðingur jólabjór.

Dökkur og fallega jólalegur í glasi. Mjög ristaður í nefi, súkkulaði, karamella. Léttari í munni en nefið gefur til kynna, þunnur í lokin. Bjórinn er hins vegar mjög jólalegur, súkkulaði ríkjandi jafnvel helst til of kryddaður. Virkar sætur en enn auðdrekkjanlegur þökk sé góðri beiskju.

Einkunn: 3,5

Stúfur frá Borg.

Massívur haus í glasi. Í nefi negull, allrahanda, strigi. Mjög reyktur, eiginlega út í öskubakka. Flottur í nefi en þurr og vatnskenndur í munni. „Of stór fyrir boddíið“ og margt sem þvælist fyrir í munni. Líklega er Stúfur að einhverju leyti fórnarlamb konseptsins, það er jólasveinanafnna. Stúfur verður að vera lítill og bjór sem er 2,25% að styrkleika hefur sín takmörk.

Einkunn: 3

Ölvisholt Jólabjór.

Flottur í glasi, lyktin létt, mikið kóla. Malt og sæta í munni, grösugur ávöxtur, örlítill ristaður bruni í lokin. Fínn matarbjór, gott eftirbragð.

Einkunn: 3

Jólabock frá Viking.

Góð froða, þurrkaður ávöxtur, sveskjur í nefi. Massívur, sólíd bjór. Pínu undirgerjaður, smá oxun. Brenndur Bismarck-brjóstsykur áberandi. Gott boddí, ekki áberandi áfengi í lokin. Mjög vel gerður bjór.

Einkunn: 4

Einstök Doppelbock.

Fín froða, smá ristað malt og karamella. Vill vera mikill en er aðeins of sætur. Málmkenndur, maltmikill. Þykkur en ekki stór,

Einkunn: 2,5

Jólamalt.

Dökkur á lit, dökk ber, tyggigúmmí, mjög sætur, meira að segja „rosalega sætur“. Ósjarmerandi og allt að því fráhrindandi.

Einkunn: 1

Jólakaldi.

Ágætis haus, smjör, karamella, málmur. Of mikil sæta í munni, hefur smá beiskju. Einkunn: 2

Tuborg jólabjór.

Brennisteinn í nefi, þunnur og einfaldur, örlítil beiskja í viðbót myndi gera mikið fyrir þennan lager.

Einkunn: 1,5

 

 

 

 

Í hópi stærri ofurbjóra var einn íslenskur bjór og fjórir danskir bjórar.  Þótt bjórarnir væru færri en í fyrri flokknum voru úrslitin óljósari. Tveir bjórar stóðu þó upp úr að mati allra. Annars vegar To øl Snowball Saison og hins vegar Mikkeller Fra..Til.. Mjög ólíkir bjórar. Annar kryddaður og ávaxtaríkur í Saison-stílnum sem oft er tengdur meira við sumarhita á túni í Belgíu en jól. Þessi bjór hins vegar afskaplega jólalegur og meira humlaður en almennt gerist í Saison bjór. Hinn var hins vegar dökkur, allt að því svartur Imperial Porter, flókinn og mikil „Jól“ í glasi.  Tveir stórkostlegir bjórar, stíllinn hins vegar gjörólíkur og hví þá að gera upp á milli þeirra? Jafntefli.

To øl Snowball Saison.

Millidökkur, freyðir fallega. Í nefi sítrus, appelsínubörkur, mandarínur og mikill kóríander. Mjög ferskur, langur, balanseraður, maltið fínt undir. Beiskja í lokin, sem springur út með ávextinum. Bjórinn er ferskur og skemmtilega humlaður en mun ábyggilega eldast ágætlega þegar „funk“ einkenni Saison bjóra tekur við af humlunum. Frábær bjór.

Einkunn: 4,5

Giljagaur nr. 14 frá Borg.

Súkkulaðihjúpaður kókos er það sem lýsir best nefinu á Giljagaur, einhver nefndi græna Mackintosh-bita, annar Bounty, þarna er líka eik, töluverð vanilla og bjórinn oxaður og allt að því örlítið tannískur. Eftirbargðið út í Pina Colada. Bjórinn er öflugur, áfengur, það er mikið að gerast, stór brögð, hann er hins vegar ekki „mind-blowing“ eins og einn orðaði það.

Einkunn: 3,5-4.

Mikkeller Fra…Til…

Hrikalegt  (flott) útlit, dökkur, djúpur litur. Nefið gýs upp, mikill reykur, kaffi, mikil rist og lakkrís. Þetta er flókinn og margslunginn Imperial Porter, sami árgangur og var hér til sölu í fyrra og hefur hann unnið á ef eitthvað er með geymslunni. Stór bjór, til að sötra einan og sér. Mætti líka reyna með rúgbrauði og rauðbeðum eða hangikjöti.

Einkunn: 4,5

Mikkeller Hoppy Lovin‘ Christmas

Flottur Indian Pale Ale. Sítrus, kóríander, nokkuð humlaður bjór. Í munni er sítrusinn áfram áberandi og það má líka auðveldlega greina greni. „Djúsí“ humlasæta en næg beiskja á móti.

Einkunn: 4

Mikkeller Red White Christmas

Þessi bjór frá Mikkeler er í 150 cl „magnum“ flösku og er nafnið dregið að því að um er að ræða blöndu tveggja stíla, annars vegar hins belgíska Witbier og hins vegar Irish Red Ale, en bæði gerin sem þekkjast í slíkum bjórum eru notuð. Þarna mætast sem sagt jólalitirnir hvítt og rautt. Fágaður bjór, mildur og fínn, appelsína, þurrkaðir ávextir, smá beiskja. Undursamlegt jafnvægi.

Einkunn: 4

Smökkun lokið hjá bjórsmökkunarteyminu og það er komið í ljós hvaða bjór var í glösunum. Á myndinni eru frá vinstri talið: Ólafur Ágústsson, Gunnar Karl Gíslason, Þorri Hringsson, Haukur Heiðar Leifsson og Gunnar Óli Sölvason. Á myndina vantar Steingrím Sigurgeirsson, sem var upptekin á bak við myndavélina.

Smökkun lokið hjá bjórsmökkunarteyminu og það er komið í ljós hvaða bjór var í glösunum. Á myndinni eru frá vinstri talið: Ólafur Ágústsson, Gunnar Karl Gíslason, Þorri Hringsson, Haukur Heiðar Leifsson og Gunnar Óli Sölvason. Á myndina vantar Steingrím Sigurgeirsson, sem var upptekin á bak við myndavélina.

 

Deila.