Jólabjórinn 2014: Sterkir Danir og óvæntir Íslendingar

Jólabjóranna er ávallt beðið með nokkurri spennu og jafnvel óþreyju hjá stórum hluta þjóðarinnar. Nú er biðin hins vegar á enda og jólabjórarnir komnir í sölu. Þeim fjölgar líka ár frá ári og það er af nógu að taka fyrir unnendur jólabjóranna. Alls geta þeir valið úr á þriðja tug bjóra næstu vikurnar sem seldir eru undir þeim formerkjum að vera jólabjórar.

Bjórsmakkhópur Vínóteksins kom saman á nafnlausa veitingastaðnum á Hverfisgötu 12 í vikunni og smakkaði sig í gegnum flóruna.  Í hópnum voru þeir Steingrímur Sigurgeirsson, ritstjóri Vínoteksins, Haukur Heiðar Leifsson, bjórgúrú Vínóteksins, Ragnar Freyr Rúnarsson læknir og bjórbloggari á Bjórbókinni.net,  Gunnar Karl Gíslason, veitingamaður á Dill, Gunnar Óli Sölvason, bjóráhugamaður og félagi í Fágun og Ólafur Ágústsson, matreiðslumaður og veitingastjóri á KEX.

Eins og gengur og gerist vöktu bjórarnir mismikla hrifningu. Sumir fengu litlar undirtektir, sum brugghúsin komu hópnum verulega á óvart þetta árið og síðan voru þarna líka bjórar sem að menn hreinlega fellu í stafi yfir.

Að venju skiptum við smökkuninni í tvennt. Annars vegar hefðbundnari bjórar og síðan í kjölfarið kraftmeiri og áfengari bjórar enda ekki sanngjarnt að meta alla bjórana á sömu forsendunum.

Þegar upp var staðið voru það tveir bjórar í öflugri flokknum sem skáru sig úr og voru að mati allra í hópnum þeir bestu. Valið stóð á milli þessara tveggja bjóra hjá öllum en menn skiptust í tvo hópa um hver hefði vinninginn. Við ákváðum því að lýsa yfir jafntefli.

Jólabjórar Vínóteksins í ár eru því tveir – báðir danskir. Annars vegar Snowball frá To øl (8% – 865 krónur)  sem annað árið í röð reyndist besti bjórinn og hins vegar Hoppy Lovin Christmas frá Mikkeller 7,8% – (881 króna). Hoppy Lovin er kryddaður IPA, Snowball er Saison. Báðir ferskir, kryddaðir, fínlegir, unaðslegir. Fullkomnir bjórar til að njóta af eftir jólamatinn.

Besti íslenski bjórinn heilt á litið reyndist vera Þvörusleikir frá Borg Brugghúsi (7% – 636 krónur). Flott rauðöl með miklum citra keim og eik. Enn ein fjöðurinn í hatt þeirra Borgmanna.

Í flokki venjulegra bjóra var það hins vegar Jólakaldi (5,4% – 410 krónur) sem hafði vinninginn. Bara ansi hreint flottur bjór, þurr, þéttur og með flottu ristuðu malti sem gefur honum svolítið kryddað yfirbragð.

Hvað mest á óvart kom svo bjórinn Almáttugur Steðji (6% – 489 krónur). Þeir hjá Steðja koma þarna inn með besta bjór sem þeir hafa bruggað frá upphafi. Frábærlega balanseraður og þægilegur bjór.

Um helgina birtum við síðan umfjöllun þar sem við förum með ítarlegri hætti  yfir alla þá 21 bjóra sem að við smökkuðum að þessu sinni.

Deila.