Mitte er málið í Berlín

Berlín hefur tekið gífurlegum breytingum á þeim árum sem liðin eru frá falli Berlínarmúrsins árið 1989 og hún er enn að breytast. Að minnsta kosti austan megin. Gamla Vestur-Berlín er nokkuð söm við sig á mörgum svæðum, það hefur ekki mikið breyst t.d. í Charlottenburg og á aðal verslunargötunni Kurfurstendamm eða KuDamm og einhver besti staðurinn til að fá sér smá vínglas og lítinn rétt er ennþá efsta hæðin í magasíninu KaDeWe eða Kaufhaus des Westens.

Austanmegin eru breytingarnar hins vegar áberandi og merkilegt nokk eru stórir hlutar gömlu Austur-Berlína enn byggingarsvæði. Að einhverju leyti má skýra það með því að verið er að stækka neðanjarðarlestarkerfið með tilheyrandi raski en ekki síður vegna þess að alls lagaleg óvissa um raunverulegt eignarhald á lóðum og fasteignum hefur tafið fyrir.

Það breytir hins vegar ekki því að gamla hjartað í Austur-Berlín, Mitte, er nú orðið nokkuð vestrænt. Á Friedrichstrasse má sjá öll stóru, þekktu alþjóðlegu tískumerkin en þó er ennþá greinilega hægt að sjá leifarnar af gamla andanum í Austur-Berlín, jafnvel götulýsingin og þar með götumyndin verður stundum svolítið drungaleg þegar farið er út fyrir stóru búlevardana.

En Mitte er líka einhver mest spennandi staðurinn fyrir þá sem ætla sér að njóta af góðum veitingahúsum í Berlín. „Senan“ er spennandi og fjölbreytt, þarna má finna glæsileg og dýr veitingahús en líka lítil, frumleg og spennandi. Ætli veitingahúsið Dóttir myndi ekki falla í þann flokk. Þetta er einn af stöðunum sem teymið Stephan Landwehr og Boris Radcun hafa byggt upp í Mitte á undanförnum árum, en þeir eru í hópi áhrifamestu veitingamanna borgarinnar um þessar stundir. Nafnið gefur til kynna sterka Íslandstengingu og það er ekki að ósekju því að eldhúsið hefur frá upphafi verið í höndum Victoríu Elíasdóttur. Hún var tiltölulega nýútskrifaður sem matreiðslumaður og hafði séð um eldhúsið á Hótel Laugarvatni eftir útskrift þegar að hún fór til Berlínar að aðstoða bróður sinn Ólaf Elíasson við að endurskipuleggja eldhúsið í vinnustofunni hans, þar sem hátt í hundrað manns starfa. Þar komst hún í samband við þá Landwehr og Radcun sem höfðu um nokkurt skeið ætlað sér að opna sjávarréttastað.

Dóttir er í Mittestrasse, alveg í hjarta Mitte og í húsnæðinu hafði meðal annars verið rekin hlerunarstöð af hálfu Stasi. Húsnæðið hafði hins vegar staðið autt í tæpa fjóra áratugi þegar Victoría komst yfir það, enda á rándýrum stað. Tekin var sú stefna að breyta því sem minnst, mála til dæmis ekki veggina upp á nýtt heldur lakka yfir flagnaða málninguna. Staðurinn hefur frábært andrúmsloft og matargerðin daðrar svolítið við þá nýnorrænu. Það er bara einn seðill í boði á hverju kvöldi, fjögurra rétta seðill (kosta rúmar sextíu evrur í okkar heimsókn) og fiskur, sem keyptur er ferskur frá Íslandi eða Eystrasaltinu er í aðalhluverki. Vínseðill er lítill en frábær og þjónustan afbragð. Þetta er staður sem menn verða að heimsækja þegar Berlín er sótt heim.

Þeir Landwehr og Radcun reka fleiri staði meðal annars Grill Royal sem er steinsnar frá Dóttir, þar sem áin Spree sker Friedrichstrasse í sundur. Algjör andstaða við Dóttir, ristastór og íburðarmikill salur sem minnir svolítið á stóru glæsilegu brasserie-staðina í París og New York og hér eru steikurnar í aðalhluverki. Þetta er staðurinn til að sjá fína og fræga fólkið og líkt á brasseri-i í París er tilvalið að fá sér stóran sjávarréttabakka og velja síðan einhverja af hinum stóru og fínum steikum sem í boði eru – með béarnaise auðvitað. Vínlistinn telur um þúsund vín og þar má finna ansi margt gott á alveg hreint prýðilegu verði.

Fyrir þá sem ferðast í hóp er þetta líka góður staður, að minnsa kosti ef hópurinn er ekki mikið stærri en 20-30 manns.

Þriðji Mitte-staðurinn sem hér verður mælt með er Crackers, einnig við Friedrichstrasse. Hann er í húsnæði þar sem áður var rekinn einn vinsælasti næturklúbbur borgarinnar – Cookies. Gengið er inn um langan og dimman gang, fram hjá eldhúsinu og síðan kemur maður inn í danssalinn sem nú er orðinn að glæsilegum matsal. Þarna fær maðu einhverja bestu kokteila borgarinnar og maturinn er hreinasta afbragð, hver einasti réttur var skotheldur og ekki spillti fyrir góður vínseðill og vel upplýstur vínþjónn. Stemmningin verður stuðmeiri eftir því sem líður á kvöldið, þannig að það er um að gera að panta borðið á Crackers ekkert of snemma.

Fyrir þá sem vilja síðan stundum fá smá heilnæmt fæði inná milli verður að benda á The Store Kitchen í Soho House á Torstrasse 1. Þar er glæsilegt hótel, fínn ítalskur veitingastaður og líka lífstílsbúð með innbyggðum veitingastað. Maður pantar einfaldlega og fer síðan með gómsætt grænmetisfæðið þangað sem maður vill í versluninni og sest. Kúl.

Deila.