Spánn sýnir sóknarleik á Fenavin

Spænsk víngerð hefur verið í gífurlegri sókn á síðustu árum sem sést kannski hvað best á því að ekkert annað ríki í heimi flytur út meira af víni en Spánn. Árlega fljóta á hálfan þriðja milljarð lítra af víni frá Spáni til erlendra markaða samanborið við um tvo milljarða lítra af frönskum vínum. Þetta segir þó ekki alla söguna því Frakkar hafa svo sannarlega vinningin þegar kemur að útflutningsverðmæti. Útflutningstekjur Frakka af víni eru þrefaldar á við það sem Spánverjar fá og Ítalir ná sömuleiðis inn tvöfalt hærri tekjum af víni þó svo að þeir flytji út mun minna í magni.

Það er því kannski ekki nema von að Spánverjar leggi nú ofuráherslu á að auka verðmæti framleiðslunnar og færa sig frá ódýrum magnvínum yfir í hágæðavín frá héruðum á borð við Rioja, Ribera del Duero. Priorat og Rias-Baixas.

Á tveggja ára fresti efnir spænski víniðnaðurinn til mikillar sýningar undir heitinu Fenavin í borginni Ciudad Real í miðju landsins og gefst þar einstakt tækifæri til að sjá þá strauma sem eru í gangi. Ljóst er að margir binda miklar vonir við auknar vinsældir spænskrar matargerðar í heiminum, ekki síst tapasmenningarinnar, en frönsk og ítölsk matargerð hafa jú verið einhver öflugustu markaðstæki vínbænda í þeim löndum. Spánverjar hugsa sér því gott til glóðarinnar.

Það hefur líka verið áberandi hversu aukna áherslu Spánverjar hafa lagt á að auka vægi sitt þegar kemur að vönduðum hvítvínum. Þar hefur þróunin á Spáni verið hvað hröðust á síðustu árum. Albarino-þrúgan sem ræktuð er í Galisíu hefur auðvitað ennþá sinn sess en aðrar spænskar þrúgur sækja stöðugt á og þótt vissulega megi finna hvítvín úr „alþjóðlegum“ þrúgum á borð við Chardonnay, Sauvignon Blanc og Riesling eru það spænsku þrúgurnar Verdejo, Viura og Godello sem að eiga sviðið. Breiddin er mikil og stöðugt fleiri svæði landsins eru farin að ná frábærum tökum á því að búa til flott vín sem að höfða til alþjóðlegs smekks en halda jafnframt sínum karakter.

Auðvitað bera þar hæst svæði á borð við Rueda, sem að við höfum getað notið hér heima, en einnig ber að nefna t.d. Riberia Sacra og Pénedes, sem auðvitað er þekktast fyrir Cava-vínin en þar er einnig að finna mögnuð hvítvín úr þrúgum á borð við Xarel-lo.

Skilyrði til ræktunar á Spáni eru gífurlega fjölbreytt. Allt frá Atlantshafsloftslaginu í hinni sígrænu Galisíu, hinnar þurru hásléttu, sjóðheitu Andalúsíu, Miðjarðarhafsloftslagsins í Katalóníu og Valensíu og Rioja þar sem norðrið og suðrið takast á í loftslaginu.

Það er ekki síst athyglisvert að sjá hversu ör þróunin er á svæðunum á hásléttunni, t.d. La Mancha og Valdepenas þaðan sem stór hluti spænsku vínframleiðslunnar kemur. Þarna voru löngum ræktuð ódýr magnvín en stöðugt fjölgar þeim vínhúsum sem leggja áherslu á að gera kröftug og vönduð rauðvín sem oft gefa ekkert eftir gagnvart stóru vínunum frá þekktum svæðum.

 

Þarna voru líka nokkuð áberandi svolítið sérstakar nýjungar sem Spánverjar hafa verið framarlega í að þróa á borð við blátt vín. Já, blátt vín þar sem litarefnum framleiddum úr þrúguhýðinu er bætt út í vínið sem gera það skærblátt. Þessum vökva er fyrst og fremst ætlað að höfða til yngri kynslóða sem er vön litríkum kokteilum og orkudrykkjum, vínin yfirleitt tiltölulega létt í áfengi og örlítið sæt. Eflaust eigum við eftir að sjá slík vín hér á landi. Hvort það er sérstakt tilhlökkunarefni er síðan annað mál.

Deila.