Michelin-götumatur Singapore

Það er stundum sagt að íbúar Singapore hafi fyrst og fremst áhuga á tvennu, að borða og versla. Og þetta nútímalega asíska borgríki hefur vissulega upp á óendalega mikið að bjóða hvort sem að áhugi gesta snýr að mat eða búðum, hvert sem komið er í Singapore er hægt að finna flottar búðir og spennandi veitingastaði.

Lengi vel var Singapore fyrst og fremst þekkt sem ein helsta hafnarborg og fjármálamiðstöð Asíu og sem tengiflugvöllur Singapore Airlines. Með kvikmyndinni Crazy Rich Asians hefur hún hins vegar einnig komist á radarinn hjá mun stærri hópi.

Eitt af helstu einkennum matarmenningar Singapore er götumaturinn eða street food. Í Singapore eru þeir sem bjóða götumat til sölu kallaðir „hawkers“ og víða um borgina má finna svokölluð „hawker’s centers“ sem við myndum líklega kalla „mathallir“ hér á landi, miðstöðvar þar sem að fjölmargir aðilar bjóða mat sinn til sölu.

Götumaturinn í Singapore er hins vegar ekkert venjulega góður. Þetta var eitt af því sem að fyrst vakti athygli okkar þegar að við heimsóttum borgina fyrir aldarfjórðungi og nutum af veitingum „hawker-anna“ í Newton Circus og Saytay Club, sá klúbbur Satay-grillara á Esplanade fyrir utan Raffles hótelið hefur nú hörfað en Newton Circus er enn í góðum gír.

Marga af bestu matarstöðunum er að finna í kringum Chinatown sem er lágreist afmarkað hverfi sem núorðið er að verða umlukið háreistum fjármálabyggingum. Sumir þessara staða hafa á síðustu árum öðlast þá upphefð að komast í Michelin-bókina frönsku sem árlega flokkar bestu veitingastaði veraldar. Tveir götustaðir í Singapore hafa meira að segja náð þeim árangri að fá hina eftirsóttu Michelin-stjörnu.

Við heimsóttum annan þeirra í heimsókn til Singapore á dögunum – Liao Fan, sem líkt og aðrir staðir af þessu tagi sérhæfir sig í einum rétti. Í tilviki Liao Fan er það sojamarineraður kjúklingur eða svínakjöt sem hægt er að fá með annað hvort hrísgrjónum eða núðlum. Fan kom ungur til SIngapore frá Malaysíu og lærði að elda undir leiðsögn matreiðslumeistara frá Hong Kong. Smám saman vann hann að því að fullkomna uppskriftina sína að soja-kjúklingnum og árið 2009 opnaði hann veitingavagninn sinn. Nokkrum árum síðar varð hann fyrsti götufæðisvagninn í heimi sem að fékk Michelin-stjörnu og jafnframt viðurkenningu fyrir að vera ódýrasti Michelin-matsölustaður í heimi.

Í dag hefur Fan stækkað við sig og upp úr hádegi fer biðröðin eftir kjúklingnum fræga að teygja sig út á götu. Og hann er líka vel þess virði, einstaklega safaríkur og bragðmikill. Besti matur sem að við höfum smakkað? Nei, en engu að síður virkilega góður og að auki líklega ennþá einhver ódýrasti Michelin-matur sem hægt er að fá. Reikningurinn að lokum var vel innan við þúsund krónur á mann fyrir mat og drykk.

Deila.