Bandarísku BBQ-sósurnar sem að við þekkjum best og koma að uppruna frá suðurríkjum Bandaríkjanna, Kentucky og Tennessee, eru yfirleitt dökkar á lit þar sem notuð er einhver tegund af tómatasósu í þær og dökkur sykur. En það eru til fleiri hefðir í Suðurríkjunum. Í norðurhluta Alabama er til dæmis að finna aðra klassíska sósu sem þar er kölluð „White Barbecue Sauce“. Uppistaðan í henni er majonnes og hún er því ljós á lit.
Við mælum eindregið með því að nota heimagert majonnes (smellið til að sjá uppskrift).
Hvítu BBQ-sósuna má nota á ýmsan hátt. Það er mjög gott að pensla kjúkling með henni síðustu 5-10 mínúturnar sem að hann er grillaður og bera síðan afganginn af sósunni fram með ásamt bökuðum eða grilluðum kartöflubitum. Þá er hægt að nota hana sem ídýfu eða í kartöflu- eða kjúklingasalöt.
- 2 dl majonnes
- 2 msk edik (hvítvínsedik eða síderedik)
- 1 msk nýpressaður sítrónusafi
- 1 væn msk fínsaxað ferskt estragon
- 1 tsk af gróft nýmuldum pipar (myljið helst í morteli)
- 1/4 tsk Cayennepipar
- 1/2 tsk sjávarsalt
Pískið öllu saman í skál. Geymið í ísskáp.