Haukur Heiðar; Þorrabjórarnir Hvalur, Surtur, Kvasir og Gæðingur

Þorrabjörarnir eru komnir í sölu, sjö talsins en umfjöllun um þá fyrstu þrjá má finna hér. Að þessu sinni tökum við hins vegar fyrir hina Gæðing, Hval, Kvasir og Surt.

Gæðingur Þorrabjór

gaedingur

 

Gæðingur sendir frá sér brúnöl í ár sem heitir einfaldlega Gæðingur Þorrabjór. Í nefi er að finna skemmtilegan humlakeim, maltkeim sem gefur til kynna örlitla sætu og kannski keim af taði. Á tungu er hann fremur léttur, örlitla sætu er að finna með blómlegum humlakeim en gefur einnig til kynna að hér sé fínn matarbjór á ferð.

Hvalur Þorrabjór Steðja

Án efa umdeildasti bjór Íslandssögunnar. Lagerbjór sem var látinn gerjast með hvalmjöli. Hér er annaðhvort um að ræða snarruglaða hugmynd eða einhverja bestu “business” hugmynd íslenskrar bruggssögu.
Aðdragandinn var einnig vægast sagt ævintýralegur en þessi bjór var bannaður af Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og á tíma var nánast óhugsandi að þessi bjór myndi nokkurntíman fara í sölu. Sem betur fer búum við ekki í landi þar sem geðþótta ákvarðanir ráða för og því var þessi bjór leyfður á síðustu stundu. Þrátt fyrir að engin matvælavottun hafi verið á mjölinu að þá er afar hæpið að það sé hættulegt mönnum.
Hér er um afbragðs lager að ræða. Hann er fallegur í glasi, ljós-rauð brúnn með örlítilli froðu. Í nefi er hann stór af lager að vera. Hér er gras, hey, þari, malt, örlitlir hafrar og lykt sem má helst finna í kassa af gulu Cheerios! Á tungu er að finna mjög flott jafnvægi malts og humla, mjölið er ekki áberandi en hann gefur langt og fínt eftirbragð. Hér er um mjög flottan lager bjór um að ræða sem smellpassar með Þorramat. Einn af betri bjórum Steðja.

Borg Surtur Nr. 23

surtur1

 

Eitt það besta við stofnun Borgar Brugghús er sú frábæra hefð að fá imperial stout á Þorranum. Hefðin hófst árið 2011 og í fyrra mátti sjá langar raðir við verslanir ÁTVR við opnun þeirra á bóndadag.
Nú er kominn þriðji Surturinn og hjá Borg hefur hefðin verið sú að koma með mismunandi afbrigði af imperial stout á hverju ári. Í ár mætti rekja ættir Surts til vesturstrandar Bandaríkjanna. Hér er um ákaflega humlaðan bjór að ræða (ákaflega er eflaust ekki nægilega stórt lýsingarorð). Hér er heill hellingur af humlum í bjór sem er svartari en himinn á tungl-lausu kvöldi (ókeypis Twin Peaks tilvitnun).
Í nefi er að finna mikla lykt af humlum, þá aðallega greni, örlitla ávexti og kryddi. Humlarnir ráðast á tunguna, hér eru mikil beiskja sem er samt afar góð. Ending er löng sem einkennist aðallega af humlunum en finna má samt sem áður örlítinn þurrk. Þrátt fyrir háa áfengisprósentu er hér um að ræða afar drekkjanlegan bjór sem eiginlega kallar á annan. Frábær hefð hjá Borg og án efa ekki síðasti Surturinn í röðinni. Hlökkum strax til næsta árs!

Borg Kvasir Mjöður Nr. 22

kvasir

 

Hér er ekki á ferðinni bjór en þar sem þetta er frá brugghúsi og eiginlega sniðið að þörfum bjórnörda að þá læt ég þennan mjöð fylgja með þessari stuttu umfjöllun. Nú kunna kannski margir að spyrja hvers vegna þetta sé ekki bjór? Mjöður á ekkert skylt við bjór nema að hér er um gerjaðan drykk að ræða. Mjöður er unninn úr vatnsblönduðu hunangi og hér eru ákveðin skil í áfengissögu Íslendinga þar sem þetta er fyrsti íslenski mjöðurinn. Í glasi er hann nánast litlaus með smá gulum tóni. Loftbólur með örlitlum haus líma sig við kantana á glasinu. Yndisleg angan af blómum, aðallega fíflum ásamt sætum keim af hunangi. Á tungu má fyrst finna örlítið gos en svo má finna hversu mikla fyllingu mjöðurinn býður upp á og langa þurra endingu á tungunni. Hér er um frábæran drykk að ræða og ég mæli með að fólk hreinlega hamstri þennan yndislega mjöð! Afar skemmtileg tilbreyting og viðbót við skemmtilega flóru bjóra frá Borg.

Deila.