
Bodegas Protos í Ribera del Duero varð til fyrir tæpri öld er hópur vínræktenda ákvað að taka höndum saman og framleiða vín undir sömu merkjum. Vínhúsið setur í dag verulegan svip á vínhéraðið, bæði í ljósi umsvifa en ein einnig í bókstaflegri merkingu með víngerðarhúsi teiknuðu af Richard Rogers sem líklega er þekktastur fyrir Centre Pompidou-bygginguna í París. Byggingarnar setja mark á umhverfi sitt og þetta er það vínhús sem dregur til sín flesta gesti í héraðinu ár hvert.
2015 árgangurinn af Protos er sígildur og tignarlegur, þrúgurnar koma af ekrum á Burgos svæðinu og vínviðurinn er rúmlega hálfrar aldar gamall. Liturinn er dökkur og djúpur, enn ungt að yfirbragði, dökkur, heitur og þroskaður ávöxtur í nefi, þykkur kryddhjúpur með vanillu og vott af kókos og lakkrís. Strúktúrinn er þéttur, kröftug, mjúk tannín, áberandi míneralískt. Gefið góðan tíma til að opnast.
4.890 krónur. Frábær kaup. Hörkuflott rauðvín fyrir nautasteikina.
-
10