
Georgía við Svartahaf er með elstu víngerðarríkjum veraldar og saga vínræktar þar spannar þúsundir ára. Í hinni fornu víngerðarhefð Georgíu, sem er hluti af skrá UNESCO yfir hinn óáþreifanlega menningararf heimsins, er þrúgusafinn ásamt hýði og jafnvel stilkjum látinn gerjast í egglaga leirkerum (qvevri) sem eru grafin í jörð í nokkra mánuði á meðan víngerjunin á sér stað. Talið er að þessari aðferð hafi fyrst verið beitt í Georgíu fyrir um átta þúsund árum síðan.
Georgía býr líka að því að þar vaxa fornar vínþrúgur sem við á Vesturlöndum höfum lítið fengið að kynnast. Hin hvíta Rkatseteli er ein þeirra en hún hefur verið ræktuð í árþúsundir í Georgíu og er vinsælasta hvítvínsþrúgan þar í landi.
Þetta qvevri-v´ín frá Marani flokkast undir það sem er kallað „orange“-vín eða appelsínugult vín. Í stuttu máli má egja að appelsínugul vín séu hvítvín sem eru framleidd eins og rauðvín, það er berjahýðin eru í leginum við víngerjunina. Við fáum því hvítvín sem hafa sömu áferð og rauðvín.
Liturinn er skærappelsínugulur, nefið fremur lokað, vottur af þurrkuðum ávöxtum, kryddi , möndlum, ger-angan sem svipar svolítið til fino-sérrís. Þurrt og þykkt í munni, mild beiskja í lokin.
2.829 krónur. Frábær kaup. Spennandi vín.
-
8