Bistro Geysir

Franska hugtakið bistro er allajafna notað yfir veitingahús sem bjóða fram einfaldan og heimilislegan mat sem er fljótur að koma á borðið og kostar ekkert sérstaklega mikið. Dæmigert Parísar-bistro býður þannig upp á nautasteik með frönskum, salat með vinaigrettu, hana í víni og annað í þeim dúr.
Ein nýjasta viðbótin við veitingahúsin í miðborginni er Geysir bistro sem er í Geysishúsinu á horni Aðalstrætis og Vesturgötu, fyrir ofan hinn ágæta Sjávarkjallara.

Það er bjart yfir salnum á Geysi, fura á gólfi og ljósir litir ríkjandi auk þess sem skærrauðir sófar og skemmtileg lýsing setja sterkan svip á salinn. Eldhúsið er hálfopið inn af barnum/kaffihúsaskenkinum þar sem á daginn er boðið upp á kaffihúsafæði.

Sem kvöldverðarstaður má segja að Geysir standi ágætlega undir því að vera íslenskt bistro og réttirnir í samræmi við áratugagamlar íslenskar hefðir: Djúpsteikur Camembert með sultu, sjávarréttasúpur, ýsa í gratíni, buff og lambasteikur auk þó nokkurs úrvals af samlokum og borgurum, allir að sjálfsögðu með kokkteilsósu og frönskum. Þetta er svona fínni útgáfa af íslenska vegaeldhúsinu enda erlendir ferðamenn ríkjandi í gestahópnum, að minnsta kosti þegar ég hef verið þarna.

Þó nokkur fjöldi smárétta er í boði og má nefna ágætan djúpsteiktan jalapeno og mossarella-stangir með salsa og ostasósu, brúskettu með hvítlauk, tómat, osti og steinselju og nachos-flögur með öllum tilheyrandi sósum. Smáréttirnir eru ágætir og ekki því marki brenndir að vera teknir tilbúnir úr frystinum og hitaðir upp – eins og svo algengt er með svona rétti – heldur tilbúnir á staðnum. Brúskettan vel grilluð og nachos-flögurnar greinilega steiktar í eldhúsinu, helst að þær hefðu dregið í sig of mikla olíu.

Saltfiskur var meðal-útvatnaður skv. íslenskri hefð með kartöflum og frekar bragðdaufu tómatamauki. Lambagrillsteik hins vegar meyrt og bleikt stykki úr læri, eldað líkt og beðið var um, með hálfri skel af kartöflu fylltri með smjörmiklum pommes duchesse (fínt orð fyrir bakaða kartöflumús) og steikta bita af gulrótum, blómkáli og brokkólí. Með þessu svo mikið af góðri béarnaise-sósu.

Þjónusta var hröð, skilvirk og glaðlynd, borðbúnaður frekar billegur (gaffallinn bognaði þegar ráðist var á kjötið) og vínlistinn sæmilegur. Verðlag er hins vegar þægilegt fyrir innlenda sem erlenda gesti, smáréttirnir flestir um eða innan við þúsundkallinn og aðalréttirnir fara ekki mikið yfir tvöþúsundkallinn.

 

 

 

 

Deila.