Heimilislegur Laugaás

Það eru þrír áratugir liðnir frá því að veitingahúsið Laugaás opnaði fyrst dyr sínar fyrir gestum. Þau eru ekki mörg íslensku veitingahúsin sem geta státað af svo langri tilveru hvað þá að árin hafi liðið án þess að breytingar yrðu á rekstrarhaldi og yfirmatreiðslumanni.

Þrátt fyrir að gífurlegar breytingar hafi orðið á veitingahúsaumhverfinu á Íslandi frá árinu 1979 nýtur Laugaás alltaf mikilla vinsælda og það er oftar en ekki þéttsetið við borðin. Tíminn hefur að mörgu leyti staðið í stað á Laugaási, umhverfið tekur ekki miklum breytingum og matargerðin ekki heldur. Gestir vita að hverju þeir ganga og líkar það vel.

Andrúmsloftið er heimilislegt og að mörgu leyti er það að setjast inn á Laugaás svipað og að setjast inn í eldhús í heimahúsi. Hingað kemur fólk ekki uppáklætt til að fara fínt „út að borða“ heldur til þess að borða og þá ekki síður og jafnvel frekar á virkum dögum en um helgar. Opnunartíminn tekur líka mið af hefðbundnum matmálstíma fólks, það er lokað klukkan níu á kvöldin.

Laugaás er rammíslenskur staður en jafnframt ekki hefðbundið íslenskur í þeim skilningi að hann sé svipaður mörgum öðrum stöðum. Því miður er þeir ekki margir staðirnir sem hafa náð að festa sig í sessi sem litlir hverfisveitingastaðir fjarri miðborginni þar sem boðið eru upp á þægilegt umhverfi, heiðarlega matargerð og heimilislega bistro-stemmningu.

Matseðillinn er svolítið kaótískur, það eru sértilboð og sérseðlar í bland við aðalréttina. Þarna eru nokkrir klassískir réttir. Gratínið stendur fyrir sínu og hefur ekki tekið breytingum í gegnum árin, hveitiþykkt með miklum osti, góðri ýsu og smá karríbragði. Nú var líka boðið upp á humarmatseðill þar sem hægt var að kaupa nokkrar mismunandi skammtastærðir. Útfærslan mjög svipuð því sem boðið er upp á í fjöruborði suðurstrandarinnar með couscous og kartöflum. Humarinn var ágætur, fremur smávaxinn en hæfilega eldaður.

Einnig er hægt að fá lamb í mismunandi útfærslum. Sú klassíska er að taka niðursneitt lambalærið með béarnaise. Jafnt sósan sem kjötið í fínu lagi með ágætu salati og bakaðri kartöflu með smjöri. Lambafilé var í sömu útfærslu nema hvað sósan var önnur, þokkaleg soðsósa.

Útfærslur réttanna eru ekki flóknar. Eins og annað er hún heimilisleg og laus við alla stæla, enda líklega það sem laðar fólk að ár eftir ár, oft sömu fjölskyldurnar. Verðlag er líka þægilegt, það fer ekki illa með veskið að snæða á Laugaási, jafnvel þótt vínflaska sé pöntuð með máltíðinni. Laugaás er því þægilegur valkostur ef menn nenna ekki að elda heima eða vilja skipta um umhverfi

 

 

 

Laugaás
Laugarásvegur 1
Andrúmsloft: Köflótt gluggatjöld og innréttingar sem hafa haldið sér í aldarfjórðung ásamt heimilislegri og vinalegri þjónustunni og matreiðslunni.

Deila.