Kjúklingurinn hans Alibab

Þessa uppskrift fann ég á sínum tíma í sænskri matreiðslubók frá áttunda áratugnum og var rétturinn þar kenndur við „Alibab“ sem sagður var hafa verið þekktur matgæðingur í París á þriðja áratugnum. Hann naut víst einnig mikilla vinsælda á matseðli Kong Hans Kælder í Kaupmannahöfn á áttunda áratug síðustu aldar.

Nú þekki ég ekki frekari deili á þessum Alibab og hef ekki heyrt á hann minnst í öðru samhengi. Hann hefur að minnsta kosti ekki náð sömu frægð og nafni hans í sögunum um Þúsund og eina nótt. Rétturinn er hins vegar einstaklega góður, það góður að maður fær ekki samviskubit út af öllum rjómanum sem í hann fer. Hann er þar að auki gott dæmi um hvernig nýta má Dijon-sinnep í matargerð.

Í upphaflegu uppskriftinni var gert ráð fyrir um einum lítra af rjóma. Ég endurtek, einum lítra. Ég hef minnkað það niður í 5 dl af matreiðslurjómi og rétturinn er (næstum því) jafngóður fyrir það. Þeir sem vilja eitthvað alveg syndsamlega unaðslegt geta auðvitað farið alla leið.

Þetta þurfum við í uppskriftina:

  • Einn stór kjúklingur, bútaður niður í 6-8 bita
  • Tvær sítrónur
  • 5 dl matreiðslurjómi/rjómi
  • Stór dolla af Dijon-sinnepi
  • Salt og pipar

Setjið kjúklingabitana í eldfast mót eða góða pönnu og smyrjið þá með Dijon-sinnepinu. Sinnepið verður að þekja þá alveg og best er að nota sem mest af því. Klára eina ca 300 gramma dós.

Eldfast mótið er sett í 250ºC heitan ofninn og kjúklingurinn eldaður þar í um 20 mínútur.

Á meðan er þunn rönd af berki flysjuð af sítrónunum, reynið að fara ekki niður í hvítt. Hitið rjómann í potti, bætið sítrónuberkinum út í ásamt nýmuldum svörtum pipar og látið krauma á vægum hita.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn eru bitarnir ásamt sinnepinu í mótinu settir út í pottinn. Blandið sinnepinu vel saman við rjómann og látið þetta krauma þar til sósan fer að þykkna aðeins.

Setjið kjúklingabitana á fat og síið sósuna í grófu sigti þannig að sítrónubörkurinn síst frá.

Saltið og piprið ef þarf.

Borið fram með long grain – hrísgrjónum.

Gott franskt rauðvín á borð við Brio de Cantenac, Lamothe Vincent eða Búrgundarvínið Olivier Leflaive Pinot Noir. Það mætti hins vegar einnig hugsa sér flott Nýjaheimsvín á borð við Catena Malbec með.

Deila.