Stellenbosch og Paarl

Þótt vínræktarsvæði Suður-Afríku sé nokkuð samþjappað á svæðinu í kringum Höfðaborg er töluverður munur á milli einstakra svæða og sömuleiðis teygist uppskeran yfir eina þrjá til fjóra mánuði. Fyrstu þrúgurnar eru tíndar þegar í janúarmánuði og þær síðustu eru ekki teknar af runnunum fyrr en í aprílmánuði. Það hvenær þrúgurnar eru tíndar getur því haft afgerandi áhrif á gæði og ekki síður stíl vínanna.

Þekktustu víngerðarsvæðin eru á svæðunum Stellenbosch og Paarl í um 30-60 mínútna akstursfjarlægð austur af Höfðaborg.

Jafnt í Paarl sem Stellenbosch má síðan finna nokkur undirsvæði. Eitt besta svæðið í Paarl er til að mynda Franschoek eða Franska fjallið, sem dregur nafn sitt af frönskum húgenottum er settust þar að á átjándu öld.

Það er hins vegar í Stellanbosch sem hjarta suður-afrískar vínframleiðslu er að finna. Þetta er fallegur bær umlukinn tignarlegum fjöllum og í dalnum má finna flest af þekktustu víngerðarhúsum Suður-Afríku. Undirsvæðin eru nokkur s.s. Papagaiiberg, Simonsberg og Jonkershoek. Þarna er Cabernet Sauvignon í essinu sínu jafnt sem Pinotage en einnig í vaxandi mæli Shiraz. Og þótt rauðvin séu stolt Stellenbosch má finna mörg afbragðs hvítvín af þessum slóðum.

Meðal víngerðarhúsanna í Stellenbosch er Neethlingshof Estate. Heimreiðin er um kílómeter að lengd prýdd tignarlegum furutrjám. Neetlingshof hefur verið í fremstu röð suður-afrískra vínhúsa í um þrjú hundruð ár og ætlar ekkert að gefa eftir. Víngerðin var öll tekin í gegn fyrir um tveimur áratugum og vínin frá Neethlingshof hafa líklega aldrei verið betri.

Víngerðarmaðurinn De Wet Viljoen sýnir fyrst hvítvínin sín og eru jafnt Sauvignon Blanc sem Chardonnay-vínin með skrúfutappa. Hann segir að skrúfutapparnir hafi fyrst verið notaðir fyrir þremur árum og þá vegna krafna frá neytendum á Norðurlöndum.

Hvert sem maður kemur í vínheiminum hafa menn sterkar skoðanir á því hvort nota eigi skrúfutappa eða korktappa og sýnist sitt hverjum. Viljoen segir að enn þurfi að tappa á flöskurnar með tveimur gerðum af töppum því þótt Norðurlöndin og Bretland vilji skrúfutappana séu t.d. Þjóðverjar alfarið á móti þeim. Á heimamarkaðnum í Suður-Afríku séu neytendur að verða stöðugt opnari fyrir skrúfutöppum ekki síst þeir neytendur er gera miklar kröfur til vínanna. Þeir séu sannfærðir um að skrúfutapparnir henti betur ekki síst hvítvínin til að viðhalda ferskleika vínanna og forðast korkskemmdir. Ódýrari vín verði hins vegar enn að setja á markað með korktappa til að viðhalda „rómantíkinni“ er tengist því að draga korkinn úr flöskunni, það fer ekki á milli mála hvorum megin markalínunnar skoðanir hans liggja.

Sauvignon Blanc-vínið frá Neethlingshof er að mörgu leyti dæmigert fyrir þann stíl sem höfðar mjög til Norður-Evrópubúa. Í upphafi magnaður hitabeltisávöxtur í nefi sem þróast síðan út í grösugri angan, vínið feitt, nokkuð áfengt með sætum ávexti í munni. „Það vilja margir troða okkur í flokk með Nýja-heimsvínum,“ segir Viljoen. „Það á hins vegar alls ekki alltaf við,“ segir hann. Athyglisvert hvítvín frá Neetlingshof er einnig Gewurztraminer með nokkurri sætu og vínið verulega kryddað, tilvalið vín með austurlenskri, kryddaðri matargerð eða fusion-eldhúsið. Stíllinn er „off-dry“, þ.e. hvorki skrjáfþurrt né sætt. Sykurinn 7,5 grömm á líterinn en efri mörk þurra vína í Suður-Afríku eru við 5,25 grömm en neðri mörk hálfsætra vína 25 grömm af sykri sem skilinn er eftir í víninu, þ.e. ekki látinn gerjast yfir í áfengi. Allt þarna á milli flokkast sem off-dry.

Merlot-vínið frá Neethlingshof er einnig mjög frambærilegt en þrúgan á stundum svolítið erfitt uppdráttar í Suður-Afríku þar sem hún krefst mjög svalra aðstæðna – á suður-afrískum mælikvarða.

Það eru hins vegar Pinotage-vínin frá Neetlingshof sem mér finnst skara fram úr og þá ekki síst hið unaðslega Lord Neethling. Raunar var bóndinn Neethling aldrei lávarður en nágrönnum hans þótti hann svo stór með sig að þeir uppnefndu hann Neetling lávarð í háðungarskyni. Það uppnefni hefur nú um tveimur öldum síðar gengið í endurnýjun lífdaga sem nafnið á fremstu Pinotage-vínum Neetlingshof.

Þá má ekki gleyma því að Neethlingshof býr til eitthvað besta sætvín Suður-Afríku en loftslagið gerir að verkum að náttúruleg eðalmygla eða botrytis myndast á þrúguklösum sem skildir eru eftir á haustin, rétt eins og t.d. í Sauternes eða við Mósel og Rín.

Það er heitt á sléttunum í Stellenbosch þar sem þær eru að mestu leyti verndaðar frá köldu sjávarloftinu. Um sumt minna aðstæður á Kaliforníu þar sem maður getur vaknað upp í ískaldri San Francisco og orðið að klæða sig í flíspeysu þó svo að í tæplega klukkutíma fjarlægð í Napa eða Sonoma sé um fjörutíu stiga hiti. Hafið hefur mikil áhrif á loftslag á Höfðasvæðinu og sjávargolan í Höfðaborg getur verið ansi svöl á kvöldin Það þarf hins vegar ekki að keyra langt inn í land til að komast í allt annað loftslag. Það hvernig vínræktarsvæðin liggja við vindum af hafi ræður því úrslitum um aðstæður.

Eitt af svalari svæðunum er t.d. Durbanville Hills skammt norður af Höfðaborg. Dalurinn liggur frá vestri til austurs og á því hafsgolan greiða leið inn dalinn. Þar eru því kjöraðstæður til ræktunar á þrúgum er þurfa ögn svalara loftslag – og enn og aftur verðum við að hafa hugfast að hugtakið svalt loftslag hefur nokkuð aðra merkinu á syðsta odda Afríku en á Íslandi.

Sjö þrúguræktendur á þessum slóðum hafa tekið sig saman undir formerkjum Durbanville Hills Winery og framleiða þar m.a. vinsælasta Sauvignon Blanc Suður-Afríku. Víngerðarhúsið er fullkomið og nútímalegt og byggingin sem hýsir víngerðina setur svip sinn á umhverfið og býður ekki einungis upp á stórfenglegt útsýni suður til Höfðaborgar heldur hýsir einnig vandaðan veitingastað.

Það mætti halda áfram að telja upp svæðin – Constantia suður af Höfðaborg þar sem fyrstu þrúgurnar voru ræktaðar upp úr 1630, Olifants River og Swartland norður af Durbanville eða þá Karoo, Worcester og Robertson, heit svæði austur af Stellenbosch þar sem rauðvínið nær ágætum hæðum.

Alls staðar er vínræktin í gífurlegri sókn. Vínhúsum hefur fjölgað úr um 250 í 500 á örfáum árum og um sjötíu bætast við árlega. Einn helsti vínsérfræðingur landsins sagði það vera vinsæla leið að losa sig við nokkrar tugmilljónir að koma til Höfðans og reyna fyrir sér í vínframleiðslu. Það mun m.a. vera vinsælt tómstundagaman auðmanna frá Jóhannesarborg. Markaðurinn einkennist hins vegar af gífurlegri samkeppni – sem mun ekki minnka eftir því sem vínhúsunum fjölgar – og því fá ekki allir mikla ávöxtun fjármuna sinna.

Við sem erum ekki framleiðendur heldur neytendur í Evrópu getum glaðst yfir stöðugt auknu framboði góðra Höfðavína.

Deila.