Vínbylting nýlendunnar

Framan af voru áströlsku vínin vissulega fremur óspennandi fyrirbæri enda gekk landnemunum erfiðlega að rækta vín í hinu heita og raka loftslagi á svæðunum, sem fyrst voru byggð. Fyrsti vínviðurinn kom til landsins með breska flotanum árið 1787 og voru plönturnar gróðursettar í Sydney Cove, nánast í flæðarmáli Sydney. Þær reyndust hins vegar sýktar og það var ekki fyrr en þremur árum síðar að Bretum tókst að rækta upp fyrstu vínekruna á svæðinu Parramatta, um tuttugu kílómetra vestur af borginni.

Aðallega var um brandíframleiðslu að ræða og gekk hún brösótt til að byrja með. Ríkisstjórinn gerði framleiðslu frumkvöðulsins Johns McArthurs upptæka og sendi hana til Bretlands. Þrátt fyrir að McArthur hafi í kjölfarið verið kærður fyrir ólöglega áfengisframleiðslu tókst honum að bjarga vínfyrirtæki sínu og tóku synir hans við því.

Tímamót urðu árið 1824 er Skotinn James Busby fluttist til Ástralíu. Busby þessi var haldinn óbilandi trú á möguleikum vínframleiðslu í Ástralíu og var honum úthlutað 800 hektara landi tæpa tvö hundruð kílómetra norður af Sydney, á því svæði sem í dag er kallað Hunter Valley. Í kjölfarið ferðaðist hann um öll helstu vínframleiðsluhéruð Evrópu og flutti aftur með sér heim um 678 vínviðartegundir. Tókst að rækta upp 362 þeirra í Ástralíu og var grunnurinn þar með lagður að vínrækt í landinu.

Loftslagið og vínsmekkur Breta á þessum tíma gerði það þó að verkum að fram á þessa öld fór meginhluti áströlsku vínanna í framleiðslu styrktra vína af sérrí og púrtvínsgerð, auk þess sem mikill hluti var eimaður í brandí. Í lok síðustu aldar voru framleidd nokkur framúrskarandi rauðvín, aðallega á svalari svæðum í Viktoríu, en flestar þær ekrur voru lagðar í rúst af rótarlúsinni phylloxeru í lok aldarinnar.

Ekki bætti svo úr skák að ástralska stjórnin hóf að greiða verulegar útflutningsbætur með styrktum vínum eftir fyrri heimsstyrjöldina, sem lið í atvinnuskapandi aðgerðum. Náði útflutningur Ástrala á styrktum vínum hámarki á millistríðsárunum.

Nýr kafli í vínsögu Ástralíu hófst í síðari heimsstyrjöldinni. Útflutningur lagðist nær alveg niður en innanlandsneysla á styrktum vínum jókst, þar sem skortur var á bjór. Þegar bjórframboðið jókst á nýjan leik eftir stríð tóku Ástralar því fegins höndum. Neysla borðvína, sem aldrei hafði verið veruleg, varð að nær engu. Árið 1955 var neysla Ástrala af borðvínum einungis eitt glas á mann á ári. Ekki bætti úr skák að karlmenn er neyttu víns á þessum tíma voru yfirleitt litnir hornauga. Sannir karlar drukku bjór!

Þetta átti þó eftir að breytast. Mikill straumur innflytjenda, alls fjórar milljónir manna, var til Ástralíu eftir stríð, ekki síst frá suðurhluta Evrópu. Þetta fólk flutti með sér siði sína og venjur varðandi mat og drykk og eftirspurnin eftir borðvíni jókst verulega.

Áströlsku vínbyltingunni, sem hófst á áttunda áratugnum, má skipta í þrjú stig. Fyrsta stigið var kassavínsbyltingin, sem átti sér stað eftir að hugvitsmanni hugkvæmdist þessi geymsluaðferð á víni. Kassavínin, sem oftast voru einföld blönduð rauðvín og hvítvín er báru nöfn á borð við Barossa Pearl áttu greiða leið að Áströlum, sem hófu að breyta neysluvenjum sínum. Nú eru kassavín ríkjandi í neyslu Norðurlandanna á víni. 

Annað stigið er hvítvínsbylting áttunda áratugarins þegar neysla vandaðra hvítvína jókst til muna í Ástralíu vegna breyttra neysluvenja og lífsstíls þjóðarinnar. Í anda Kaliforníu einbeittu menn sér í auknum mæli að einnar þrúgu vínum úr þekktustu frönsku þrúgunum á borð við Chardonnay, Riesling, Cabernet Sauvignon og Merlot. Ein mikilvægasta rauðvínsþrúga Ástrala er franska Rónarþrúgan Syrah, er Ástralar nefna Shiraz.

Þriðja og mikilvægasta stigið var svo útflutningsbyltingin, sem hófst á níunda áratugnum. Margir samverkandi þættir urðu til að auðvelda Áströlum leikinn þegar þeir knúðu dyra á Bretlandsmarkaði fyrir tíu árum. Í fyrsta lagi var vínmarkaðurinn mjög frábrugðinn því sem hann er í dag. Vínframleiðendur á Spáni, í Frakklandi, á Ítalíu og í Þýskalandi höfðu um árabil lítið hirt  um að koma til móts við kröfur neytenda og voru margir hverjir sáttir við að framleiða frekar fyrir vínhaf Evrópusambandsins en neytendamarkað. Ódýru borðvínin frá Miðjarðarhafssvæðunum voru á þessum tíma oftar en ekki vart boðleg neytendum, miðlungsdýr Bordeauxvín sjaldan peninganna virði og þýsk hvítvín of sæt og gervileg.

Níundi áratugurinn var líka tími efnahagslegrar uppsveiflu, uppatísku og breyttra neysluvenja, ekki síst hjá ungu fólki. Það ferðaðist meira og varð opnara fyrir nýjungum í mat og drykk.

Allt í einu birtust á markaðnum fersk, ávaxtarík, opin og stílhrein vín sem að auki kostuðu hlægilega lítið miðað við þau vín sem fyrir voru. Nýjar vínbúðakeðjur á borð við hina bresku Oddbins, sem reknar voru af framsæknum ungum mönnum, tóku þeim opnum örmum og það sama má segja um víngagnrýnendur bresku stórblaðanna. Síðast en ekki síst féllu neytendur á Bretlandi og Norðurlöndunum kylliflatir fyrir áströlsku Chardonnay, Shiraz og Cabernet Sauvignonvínunum, sem virtust vera þeim eiginleikum gædd að bregðast aldrei trausti þeirra.

Deila.