Kjötbollur eru alltaf vinsælar. Í síðustu viku vorum við með uppskrift að ítölskum kjötbollum. Í kjölfarið áskotnaðist mér dýrindis uppskrift að spænskum kjötbollum frá þeim Jóhannesi og Birnu í Hlíðartúni. Það er smá handavinna í kringum þetta en það erfiðasta er að þurfa að bíða eftir að rétturinn kemur á borðið. En hann er svo sannarlega umstangsins virði.
Þetta þarf í uppskriftina fyrir fjóra
Kjötbollurnar
- 500 gr nautahakk
- 25 gr rasp (helst heimatilbúið úr grófu brauði)
- 25 gr Parmesanostur, rifinnn
- 1 egg
- 1 lítill fínsaxaður laukur
- 1 “solo” hvítlaukur eða 2-3 hefðbundnir hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 2 msk ólífuolía
- 1 dl rauðvín
- 1 dós saxaðir tómatar
- 1 handfylli ferskt basil
Krydduðu kartöflurnar
- 1 kg kartöflur
- 1 msk ólívuolía
- 2 feitir “solo” hvítlaukar eða 4-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- ½ saxaður rauður chili, fræhreinsaður
- ¼ tsk paprikuduft
- (eða 2 msk mjög fínsöxuð rauð paprika – gefur flottara útlit og ágætt bragð)
- 1 dl hvítvín
- 5 stk grófsaxaðir tómatar
- 4 stönglar timjan
Blandið kjöti, raspi, parmesan, lauk, hvítlauk og eggi saman í skál og hnoðið í litlar bollur. Gott er að nota ísskeið við þetta. Bollurnar ættu að verða um 24.
Steikið bollurnar nokkrar í einu í olíu, takið af pönnunni og geymið á eldhúspappír. Hellið rauðvíninu yfir og látið sjóða á meðan þið leysið upp skófarnar. Bætið við söxuðum tómötum úr dós, svolitlu viðbótar vatni og dreifið basil blöðunum yfir. Setjið nú bollurnar aftur á pönnuna og látið malla (undir loki) í 30 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.
Skerið kartöflurnar í stóra teninga eða í tvennt ef þið eruð með nýtt smælki. Steikið þær í olíu í nokkrum umferðum nema þið séuð með þeim mun stærri pönnu og leggið á eldhúspappír eftir steikinguna.
Hitið olíu á annarrin pönnu, bætið við, lauk, hvítlauk og chili og steikið í 7 mínútur. Stráið paprikuduftinu eða smátt saxaðri papriku yfir og bætið loks við hvítvíninu, grófsöxuðu tómötunum og timian. Látið malla í um 15 mínútur. Þessari sósu er þá hellt yfir forsteiktu kartöflurnar.
Borið fram með grænu salati.
Með þessu spænskt Rioja-vín, t.d. El Coto eða jafnvel rauðvín frá Portúgal til dæmis Crasto.