Vín vikunnar

Það eru alltaf að bætast ný vín í sarpinn á víndómasíðunni, mörg þeirra mjög frambærileg. Ég vek sérstaklega athygli á þremur mjög góðum suður-ítölskum vínum. Þar ber fyrst að nefna tvö vín frá hinum athyglisverða framleiðanda Mario Bisceglia í Basilicata sem eru framleidd undir heitinu Terra di Vulcano og þar væntanlega til eldfjallsins Monte Vulture í Basilicata. Annað vínið er raunar hvítvín frá nágrannahéraðinu Kampaníu – Falanghina 2008. Hið rauða hins vegar frá Basilicata, hið  magnaða Aglianico del Vulture 2006.

Þá smakkaði ég aftur gamlan kunningja frá Púglía-héraði úr Primitivo-þrúgunni. Rauðvínið A Mano 2007 olli ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og er með betri kaupum í sínum verðflokki.

Loks ber að nefna ítalskt kassavín sem rak á fjörur mínar frá Cantina Leonardo. Þetta er rautt Toskanavín úr Sangiovese-þrúgunni – Leonardo Rosso Toscana – og var bara í fínasta lagi.

Ástralía hefur einnig átt sína fulltrúa með hinum frísklegu og fínu Stump Jump-vínum frá D’Arenberg. Annars vegar The Stump Jump Chardonnay 2008 og hins vegar The Stump Jump Grenache-Shiraz-Mourvédre 2007.

Frá Bordeaux, nánar tiltekið þorpinu Margaux kemur hið tignarlega Brio de Cantenac 2002 sem er annað vín Chateau Cantenac Brown.

Loks kom umfjöllun um enn einn góðan Portúgala, hið ódýra og óeikaða Flor de Crasto 2007 frá stórframleiðandanum Quinta de Crasto.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánari umsögn um þau.

Deila.