Hyderabadi Biryani með lambakjöti

Biryani eru hrísgrjónaréttir sem algengir eru víða um Indland en upphaflega barst þessi tegund matreiðslu til Indlands með múslímskum innflytjendum. Í biryani réttum sem kenndir eru við Hyderabad er yfirleitt notað kjöt, lamb eða kjúklingur. Hyderabad var sjálfstætt konungsríki innan Indlands á nýlendutímanum en var brotið upp er Indland öðlaðist sjálfstæði árið 1948. Þessi uppskrift sem við fengum frá Chandriku á Austur-Indíafjelaginu kemur frá héraðinu Andra Pradesh í Mið-Indlandi sem var eitt sinn hluti af Hyderabad.

1kg lambakjöt

500 Basmati-hrísgrjón

5 dl jógúrt

1 ½ tsk engiferrót

1 ½ hvítlaukur, maukaður

4 grænir chilibelgir, skornir langsum og fræhreinsaðir

3 laukar, saxaðir

1 tsk rautt chilli-duft

½ tsk shai jeera (svört kúmminfræ)

1 búnt kóríander, saxað

1 búnt mynta, saxað

2 kanilstangir

nokkrir saffranþræðir

6 kardamommur

5 negulnaglar

1 lime

4 msk olía

4 msk ghee (skírt smjör) eða olía

1 tsk salt

örlítið mace eða múskat

Aðferð:

Skerið kjötið í litla bita. Rífið niður hvítlaukinn og engiferið og blandið saman ásamt salti. Veltið kjötinu upp úr maukinu og geymið í klukkustund.

Saxið laukinn og brúnið í olíu á pönnu. Notið flata skeið til að merja steikta laukinn. Blandið saman ¾ af marða lauknum, jógúrtinu, rauða chilli-duftinu og mace/múskati, kanilstöngum, chili-belgjum, kardamommum, shai jeera, lime-safa, helmoingnum af saxað kóríandernum, helmingnum af söxuðu myntulaufunum, negulnöglunum og saffran.

Blandið kjötinu saman við blönduna og geymið í annan klukkutíma.

Sjóðið grjónin. Þegar þau eru hálfsoðin hellið þið vatninu frá.

Setjið kjötið ásamt kryddleginum í stóran, þykkbotna pott. Komið hrísgrjónunum fyrir ofan á kjötinu.

Bætið við ghee og restinni af kóríandernum, myntunni og marða lauknum ofan á hrísgrjónin.

Lokið pottinum vel. Á Indlandi er yfirleitt sett deig í kringum lokin. Þá hefð má rekja til þess að áður voru notaðir leirpottar með engum handföngum sem settir voru beint á eldiviðinn.

Eldið á lágum hita í hálfa klukkustund.

Takið af hitanum og látið standa undir loki í 5 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.

Takið lokið af pottinum, blandið öllu vel saman og setjið á fat.

Berið fram með naan-brauði og raita.

Ég myndi leggja til gott hvítvín með þessu. Gruner Veltliner frá Austurríki smellpassar eða þá ferskt suður-evrópskt vín á borð við Villa Antinori eða nýsjálenskt á borð við Saint Clair Sauvignon Blanc.

 

Deila.