Þetta hvítvín frá Toskana er framleitt úr þrúgu sem í raun á heima norðar á Ítalíu og fellur því undir skilgreininguna IGT líkt og önnur vín sem nota „utanaðkomandi“ þrúgur. Pinot Grigio hefur hins vegar fyrir löngu sýnt að hún nýtur sín ekki bara á Norður-Ítalíu líkt og þetta vín sýnir vel fram á.
Banfi San Angelo 2008 er raunar jafnvel um margt betra en mörg af þeim norður-ítölsku Pinot Grigio-vínum sem maður rekst á. Það hefur mikla og fína fyllingu og er langt og bragðmikið. Angan af sætum perum, sítrus, nýbökuðum snúðum og blómum. Þéttur og endalaus ávöxtur í munni, ferskt og mjög langt. Afbragðsvín.
Með grilluðum humar eða öðrum humarréttum.
2.497 krónur. Mjög góð kaup.