Louis Guntrum Oppenheimer Sacktrager 2006

Vínekran Sackträger liggur niður að Rín við þorpið Oppenheim en nafnið á sér langa sögu og má rekja til þess er sekkir voru bornir upp brekkuna úr prömmunum sem áðu við þorpsbryggjuna. Guntrum-fjölskyldan sem hefur ræktað vín við Rín í margar aldir hefur aðsetur í næsta þorpi – Nierstein – en margar af bestu ekrum fjölskyldunnar eru hins vegar í Oppenheim.

Vínin frá Nierstein og Oppenheim eru býsna ólík og má rekja það til mismunandi jarðvegs. Í kringum Nierstein er leirinn sendinn og rauðleitur og gefur af sér vín með mikinn þokka og fínleika þar sem ilmefni Riesling-þrúgunnar njóta sín til fulls. Rétt sunnann við Nierstein verða jarðvegsskil og við tekur dekkri og þyngri jarðvegur sem gefur af sér þyngri, kraftmeiri og áfengari vín.

Oppenheimer Sackträger Riesling Spätlese 2006 er flottur Rínarriesling með kröftugri, rósa-, sítrónu- og olíuangan. Þægilega þurrt í munni með þéttum, olíumiklum sítrusávexti og góðum sýrustrúktúr.

Frábært matarvín, t.d. með reyktum eða gröfnum lax.

2.599 krónur

 

 

 

Deila.