Beljan Hvítvín Toskana 2008

Þetta hvítvin kemur frá Toskana á Ítalíu og er framleitt af vínhúsinu Castello di Querceto. Raunar er það vínhús þekkt fyrir flest annað en kassavín en féllst á að framleiða tvær beljur, aðra hvíta og hina rauða, fyrir tilstilli eldhuganna Arnars og Rakelar í Vín og Mat.

Hvítvín þetta er fyrst og fremst gert úr þrúgunni Chardonnay með smá Trebbiano. Þetta er þó alls ekki dæmigerður Chardonnay, heldur hvítur ítali. Vínið er mjög létt og ferskt og epli eru ríkjandi út í gegn. Í fyrstu voru þau gul og töluvert þroskuð en urðu grænari og ferskari þegar beljan hafði  verið opnuð í smá tíma, eins og vínið þyrfti smá tíma til að lyfta sér upp. Þarna er líka léttur sítrus og sýran er mild og þægileg.

Vel kælt hentar þetta vín ágætlega sem fordrykkur eða þá með léttum sjávarréttum og salötum.

5.890 krónur eða sem samsvarar 1.472 krónur miðað við 75 cl. flösku.

 

Deila.