Caesar salat

Caesar salatið eða Seasar er eitt frægasta salat síðustu ára en er ekki eins og margir halda kennt við Júlíus Caesar Rómarkeisara. Það er raunar ekki einu sinni ítalskt. Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og á að hafa búið þetta salat til í fyrsta skipti árið 1924.

Í dag er Caesar salat gert í óteljandi útgáfum. Í þessari hér reynum við hins vegar að vera nálægt þeirri upprunalegu hvað hráefnin varðar, sleppum t.d. ansjósunum, sem eru seinni tíma fyrirbæri.

Best er að nota Romaine salat eða annað stökkt, grænt salat. Það er hins vegar dressinginn eða salatsósan sem skiptir mestu máli og gerir Caesar að Caesar. Hana gerum við svona:

  • 1,5-2 dl hágæða ítölsk ólífuolía
  • 1 eggjarauða
  • 3 hvítlauksgeirar, marðir eða pressaðir
  • 1 msk Worchestershire-sósa
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 sítróna, safinn pressaður
  • nýmulinn pipar

Best er að blanda þessu saman með gaffli í lítilli skál eða glasi. Pískið saman eggjagulu, Worchestershire-sósu, sinnepi, hvítlauk, sítrónusafa og pipar. Pískið síðan olíunni smátt og smátt saman við þannig að úr verði þykk sósa.

(Ef þið eruð löt eða í tímahraki er auðvitað hægt að setja allt í blandara og ýta á takkann)

Einnig þarf að útbúa brauðteninga. Þá er hægt að kaupa tilbúna eða búa til sjálfur. Skerið dagsgamalt franskbrauð í litla teninga. Bræðið 3-4 matskeiðar af smjöri. Hrærið 2-3 pressuðum hvítlauksgeirum saman við ásamt 1/2 tsk af þurrkuðu basil og timjan. Veltið teningunum upp úr hvítlaukssmjörinu og bakið í ofni við 200 gráður þar til þeir eru orðnir stökkir, dökkir og fínir. Tekur 20-30 mínútur.

Loks þurfum við að rífa niður eina 2 dl af parmesanosti. Notið grófu hliðina á rífjárninu.

Ef við ætlum að hafa t.d. kjúkling með er gott að nota bringur, skera þær í 1-2 sm þykkar ræmur, krydda að vild og steikja á pönnur. Það er líka hægt að grilla lax eða humar með. Upprunalega salatið er hins vegar ekki með neinu af þessu tagi.

Nú er allt tilbúið fyrir salatið.

Setjið Romaine salatið í stóra skál, blandið salatdressingunni saman við, bætið brauðteningunum og rifna parmesanostinum saman við. Setjið loks kjúklingabringurnar ofan á og berið fram.

Með þessu ferskt Nýjaheimshvítvín, gjarnan Chardonnay. Mæli með Peter Lehmann Chardonnay eða Catena Chardonnay.

 

Deila.